27.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

44. mál, skipun læknishéraða

Ari Jónsson:

Þetta frv. um breyting á skipun læknishéraða í Strandasýslu er komið fram eftir eindreginni ósk Strandamanna, einkum úr norðursýslunni, grundvallað á svo gildum ástæðum, að annarstaðar er svo traustra ástæðna varla kostur. Læknaskipun er sú í Strandasýslu, að hún er öll eitt hérað, nema Bæjarhreppur, er lagður er undir Miðfjarðarhérað. Sú breyting, sem farið er fram á hér, er að Miðfjarðarhérað er minkað um helming af þessum hrepp, en Strandasýslu svo skift í 2 héruð. Strandasýsla öll er 7 hreppar; þeir liggja allir með sjó fram, eru langir og ógreiðir yfirferðar. Getur verið, að alþingi þyki nóg um breytingar á skipun læknishéraða og margar óskir um nýja lækna. En það er mín skoðun, að krafa um að fá nýja lækna sé sú réttlátasta krafa, þegar talað er um fjölgun embættismanna.

Eg þekki nokkuð til á Austurlandi, er víða kunnugur á Suðurlandi, en bezt kunnugur á Vesturlandi, og eg veit það, að hvergi getur komið jafnréttlát krafa um lækni sem þessi úr Strandasýslu. Því að þótt víða sé pottur brotinn með samgöngur á voru landi, vegir illir, langar heiðar og torsóttar, fjallgarðar örðugir og næstum óklífandi, þá tekur þó út yfir í Strandasýslu. En því eru margir kunnugir, hve læknisleysið er átakanlega þungur kross á Strandamönnum. Og við það hafa þeir átt að búa.

Það eru einkum þessi tvö atriði, mannfjöldi og vegalengd, er sérstaklega ber að taka til greina, þegar fjölga á læknishéruðum.

Mannfjöldinn er nægur til þess, að tvö læknishéruð séu mynduð, þegar borið er saman við sum mannfærri læknishéruðin annarstaðar á landinu. Og útlit er fyrir, að íbúum sýslunnar muni heldur fjölga en fækka, því bæði er það, að landbúnaður er í mikilli framför í þessari sýslu, og svo er að sumra dómi mikið útlit fyrir, að fiskiútvegur aukist, einkum síldarútvegur, norðan til í sýslunni; er hugsanleg aðsókn þangað af útlendingum, ef Reykjarfjörður skyldi reynast fiskisæll fjörður að því er síldarveiði snertir, sem margir þar nyrðra hafa trú á.

Þá er að líta á hitt, vegalengdina. Hver maður, sem lítur á Íslandskort, sér skjótt hve vegalengdir eru hér afarmiklar, og það svo, að hvergi eru slíkar í einu læknishéraði. Eins og nú er, eru 2—3 dagleiðir frá einum enda læknishéraðsins á annan. Ef sækja ætti lækni frá nyrztu bæjunum í læknishéraðinu og læknirinn væri staddur syðst í héraðinu, væri það álíka langt, samkvæmt allítarlegri mælingu, eins og héðan og norður í Húnavatnssýslu. Ætli Reykjavíkurbúum þætti það ekki ærið langur vegur að sækja lækni sinn alla þá leið. Enn fremur er þess að geta, að víða um sýsluna er illfært á veturna og norðan til í sýslunni heiði, sem oft og tíðum er ófær yfirferðar.

Eg treysti því, að þingið taki vel þessari sanngjörnu beiðni Strandamanna.

Mælist eg til þess, að háttv. deild annað hvort kjósi nýja nefnd í mál þetta eða vísi því til þeirrar nefndar, er áður hefir verið kosin til að íhuga skipun læknishéraða.