14.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

46. mál, verslunarbækur

Lárus H. Bjarnason:

Eg þakka hinum háttv. framsögumanni fyrir hvernig hann tók uppástungum mínum. Það er hægðarleikur að breyta gjaldi því, sem samkvæmt lögunum frá 2. febr. 1894 á að borga fyrir löggilding verzlunarbóka. Einstökum ákvæðum þeirra laga má breyta sem öðrum lagaákvæðum. Viðvíkjandi bréfunum til verzlunarinnar skal eg geta þess, að mér er auðvitað ekkert kappsmál, að þau séu færð inn í sérstaka bók, heldur aðeins að þeim sé haldið saman, svo að aðgangur sé að þeim, ef nauðsyn rekur til, því að þau eru fult svo þýðingarmikil, sem bréf þau, er frá verzluninni eru send. Það er talað um fölsun verzlunarbóka í 264. gr. hinna almennu hegningarlaga, en þar sem hún aðeins á við gjaldþrotaskifti, eins og eg gat um áðan, er ekki nóg að vísað sé til hennar, en hegningarákvæði þessara laga eiga eigi að síður að vera í samræmi við hana.