13.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Steingrímur Jónsson:

Við erum 2 nefndarmenn í minni hluta, og greinir á við meiri hlutann um veruleg atriði. Vér erum að vísu samdóma hinum háttv. meiri hluta um að nauðsynlegt sé að gæta alls sparnaðar, enda hefir sú meginregla verið ríkjandi áður hér á þingi. En vér viljum haga sparnaðinum öðru vísi en hinn háttv. meiri hluti. Eg skal taka það strax fram, að það er ekki svo mjög sakir hags landsjóðs, heldur sakir ástands atvinnuveganna og efnahags einstaklinganna, að sparnaður er nauðsynlegur. Eins og nú horfist á, að því er atvinnuvegina snertir, má búast við að tekjur landsjóðs rýrni töluvert.

Samkvæmt landsreikningnum fyrir árin 1906—1907 var tekjuhallinn á þeim árum að eins 111,000 kr., og þó var á á þeim tíma eytt c. 550,000 kr, sem ekki stóðu á fjárlögum, og fóru hæstu upphæðirnar til kostnaðar við konungskomuna og til Reykjanesvitans. Peningaforði landsjóðs ásamt tekjueftirstöðvum var við árslok 1907 417,000 kr. Á sama tíma hefir viðlagasjóðsfúlgan aukist um nokkuð á annað hundrað þúsund krónur. Peningaforðinn er reiknaður nettó, því að auk þessara 417,000 kr. voru til peningar upp í ríkissjóðsskuldina. Árið 1908 voru tekjurnar, þegar lánið er reiknað með, 240,000 kr. fram yfir gjöldin, og þessu láni átti að verja til símabygginga eða annara arðvænlegra fyrirtækja fyrir landsjóðinn. Svo mikið er og óhætt að fullyrða, að á árinu 1909 verður tekjuhallinn mjög lítill, ef hann verður þá nokkur. Með þessu þykist eg hafa sýnt, að hagur landsjóðs er alls eigi svo slæmur nú, að það væri þess vegna ekki hægt að búa til sæmileg fjárlög. Hitt er satt, að efnahagshorfur almennings eru svo ískyggilegar nú, að full ástæða er til að gæta sparnaðar svo sem auðið er. En sparnaðurinn á ekki að koma niður á þann hátt, sem háttv. meiri hlutinn leggur til, — hann á ekki að koma niður á framfarafyrirtækjum, er miða til þjóðþrifa og menningar. Bezt að spara smáupphæðir, sem oft og einatt eru veittar án þess nokkurri reglu sé fylgt, og án þess nokkur vissa sé fyrir að þær komi að gagni, en alls eigi að hætta við fjárveitingar til framfarafyrirtækja, sem þegar er byrjað á, eða eru nauðsynlegir liðir í því sem gert hefir verið, til þess að það komi að fullu gagni. Og þá kem eg að því, sem mér og meiri hlutanum ber á milli aðallega, það er Rangárbrúin.

Rangárbrúin er framfarafyrirtæki, liður í samgöngubótum, sem byrjað var á 1894, og haldið hefir verið áfram með stöðugt síðan. Áin er eitt af stærstu og erfiðustu vatnsföllum þessa lands, sem nú eru óbrúuð, og slítur í sundur fjölförnustu akbraut lands, þjóðveginn sem

liggur frá Reykjavík alla leið austur í Vestur Skaftafellssýslu. Hún er að öllum jafnaði lítt fær vögnum, og oft með öllu ófær; yfir hana eiga að sækja margir erlendir ferðamenn, sem ferðast hér á sumrum, auk héraðsbúa þar eystra, er verzlun sækja vestur yfir ána. Þeir eru í nefndaráliti fjárlaganefndarinnar taldir 1200—1500, en réttara mun vera, að þeir séu 1500 full. Þessari samgöngubót má því ekki seinka, nema brýna nauðsyn beri til. Auk þess hefir það verið meginregla þingsins að undanförnu, að láta það ganga fyrir öllu öðru að brúa ár. Stórárnar hindra samgöngur bæði í líkamlegum og andlegum skilningi. Auk þess fæ eg ekki betur séð, en því hafi verið lofað af síðasta þingi, að fé skyldi verða veitt til þessarar brúargerðar á þessu þingi. Verkfræðingur landsins leggur það líka til, að brúin verði bygð nú, því að nú hafi hann tíma til að líta eftir verkinu, sem hann ef til vill ekki hefði síðar. Málinu hefir og stöðugt vaxið fylgi í neðri deild, og það er því fremur ástæða til þess að samþykkja brúna, sem Rangárvallasýsla býðst til að leggja töluvert fé til hennar.

Eg vona því, að tillaga háttv. meiri hluta fjárlaganefndarinnar um að fella burt fjárveitinguna til Rangárbrúarinnar, nái ekki fram að ganga hér í deildinni.

Um brautirnar, sem nefndar eru í nefndarálitinu, vil eg láta þess getið, að þær er hægt að afhenda héruðunum strax 1909, þegar aðgjörðinni er lokið, nema Fagradalsbrautina, sem ekki er hægt að afhenda fyr en 1911.

Þá ætla eg að minnast á 5. breytingartillögu nefndarinnar, sem eg hefi gert breytingartillögu við á þgskj. 470. Nefndin ætlast til, að Austfjarðabáturinn fari 3 ferðir til Víkur og Vestmanneyja, eftir samkomulagi við sýslunefnd Vestur-Skaftafellssýslu, en eg sting upp á, að ferðirnar til Vestmanneyja verði að eins 2. Fyrst og fremst ber þess að gæta, að féð var veitt til bátaferða á Austfjörðum, en auk þess, og það er aðalatriðið, þá er langlíklegast að ef styrkurinn verður bundinn því skilyrði, er fjárlaganefndin leggur til, þá verði ekkert af ferðunum í ár. Í fyrra reyndist ómögulegt að fá bát til þess að ganga milli Langaness og Hornafjarðar fyrir 6000 kr., þó að héruðin byðust til að leggja honum stóran styrk, auk þessara 6000 kr., er hann fengi úr landsjóði. Nú er von um að hægt verði að útvega bát fyrir þessar 10,000 kr. og styrk hlutaðeigandi héraða. En eftir þeim upplýsingum, sem eg hefi getað aflað mér, eru engar líkur til, að sá bátur fáist til að fara 3 ferðir til Vestmanneyja; það mesta sem til mála gæti komið væru þessar 2 ferðir, sem breytingartillaga mín fer fram á. Eg er ekki vonlaus um, að báturinn fengist, þótt honum yrði gert að skyldu að fara 2 ferðir til Vestmanneyja.

Fleira var það ekki, sem eg hafði að athuga við mál þetta, og skal eg því ekki tala frekar um það að sinni.