26.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

46. mál, verslunarbækur

Frsm. (Ágúst Flygenring):

Sú breyting hefir verið gerð á frumvarpinu í Nd., að aftan af 2. gr. hefir verið klipt ákvæðið, að láta skuli í té samrit af viðskiftunum í hvert sinn sem þau fara fram bóklega, og sett inn í stað þess ákvæði það, sem upprunalega stóð í frumvarpinu, nefnilega að frumbókin skuli vera gegnumdregin og löggilt. Nefndin vill halda fast við stefnu sína í þessu máli, sem sé þá, að bæði fyrir kaupanda og seljanda sé það miklu meiri trygging fyrir því, að rétt sé bókað, ef samrit er afhent af viðskiftunum, heldur en þó frumbókin sé löggilt. Nefndin sér því ekki ástæðu til að taka breytinguna til greina, og það því fremur, sem henni er kunnugt um, að í nefndinni í Nd. voru skiftar skoðanir um þetta mál; eg hefi átt tal við tvo af nefndarmönnunum, sem báðir álitu frumvarpið betra í því formi sem það var samþykt hér. Nefndin víkur því ekki frá sinni fyrri stefnu í þessu máli og vonar að deildin hafi heldur ekki skift um skoðun, og breyti frumv. aftur samkvæmt till. á þgskj. 608.