13.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Framsögumaður (Sig. Stefánsson):

Eg bjóst við hljóði úr horni, þar sem háttv. 4. kgk. þm. var. Hann er miklu bjartsýnni en eg, að því er fjárhag landsins snertir. Eg vil ekki fara út í tölur þær, sem hinn háttv. 4. kgk. þm. lagði svo mikið upp úr, en eg verð að halda mér við fjárlögin eins og þau líta út nú. Og það er að minsta kosti óhætt að fullyrða, að það er enginn tekjuafgangur frá síðustu árunum. Og það, að fjárhagurinn ekki er verri en hann er, er ekki að þakka þinginu og stjórninni, heldur guði og náttúrunni. Ef tekjurnar hefðu ekki þau árin farið langt fram úr áætlun sakir góðæris til lands og sjávar, þá hefði orðið stórkostlegur tekjuhalli. En nú er eftir að vita, hvort guð og náttúran greiða þannig úr flækjunni á hverju ári. Og að minsta kosti er fjárhagsástandið í landinu þannig nú, að vér getum ekki gert okkur vonir um jafn glæsilegan tekjuauka, og orðið hefir síðustu árin.

Það var rétt hjá háttv. 4. kgk. þm., að það var aðallega Rangárbrúin, sem í milli bar. Eg get ekki séð, að sú brú sé svo nauðsynleg, að þjóðarvelferðin biði nokkum hnekki, þótt henni sé frestað. Áin er að vísu mikið vatnsfall, en straumlítil og botninn góður, svo að á sumrin má jafnvel fara yfir hana með hálfar kerrur, og það eru, eins og í nefndarálitinu stendur, að eins 1200—1500 manna, sem yfir hana þurfa að flytja, — setjum að það séu 1500 full, eins og hinn háttv. 4. kgk. þm. heldur fram, því að fólksfjöldinn í þeim 3 hreppum, sem á brúnni þurfa að halda, mun vera um 1500, en af þeim verzla margir úti í Vestmanneyjum. Háttv. 4. kgk. þm. taldi brú þessa nauðsynlega sakir útlendra ferðamanna, en útlendir ferðamenn fara um alt land, og eigi að brúa allar þær ár, sem þeir þurfa yfir að fara, verður engin óbrúuð árspræna á landi hér. Meiri hlutinn álítur ekki að frestun þessa fyrirtækis hefti neitt verulega framfarir þjóðarinnar. Að síðasta alþingi hafi gefið ádrátt um þetta : mál, er ef til vill rétt, en þess ber að í gæta, að kosningar hafa farið fram síðan þá, svo að nú sitja nýir menn á þingi, sem engin loforð hafa gefið og eru því ekki bundnir við loforð síðasta þings. Meiri hlutinn verður að halda fast við, að þessa fjárveiting megi spara mikið til að meinalausu. Auðvitað væri það mikil þægindi fyrir þessa fáu íbúa að fá brúna, en þægindin verða oft að lúta í lægra haldi, þegar ekki eru efni og ástæður til að útvega þau. Að öðru leyti sé eg ekki ástæðu til að svara meiru.