13.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Steingrímur Jónsson:

Eg vil að eins koma með örstutta athugasemd. Háttv. framsögum. (þm. Ísf.) sagði, að ekki væri neinn afgangur frá fyrra ári til að bæta upp þann áætlaða tekjuhalla; hann sagði að hann væri þegar upp étinn. Þetta er ekki rétt. Árið. 1907 var samþykt að taka ½ miljón kr. lán til símalagninga. Afgangurinn af þessu fé, c. 240,000 kr., er til í landsjóði. Auðvitað getur háttv. þm. ekki þreifað á þessum peningum hér í deildinni, en hann getur auðveldlega sannfært sig um að þeir eru til með því að fara í landsbankann. Þessar 240,000 kr. eiga að ganga til síma. (Sigurður Stefánsson: Það er búið að verja þeim til síma). Nei! Af þessari hálfu milljón er að eins búið að eyða hér um bil helmingnum til síma. Þegar búið verður að leggja þá síma, sem væntanlega verða lagðir á þessu yfirstandandi ári, verður búið að eyða í alt c. 320 þús. kr. af upphæðinni. Þá eru því eftir 180 þús. kr., og um þá upphæð minkar tekjuhallinn. Hann verður því að eins 350 þús. kr. eftir báðum lögum, og verður vafalaust minni ef ekki koma sérstök útgjöld fyrir, því að eg er sannfærður um það, að árið 1909 gefur fremur tekjuafgang en hitt. — Eg er samþykkur háttv. þm. um að hin góða niðurstaða 1907 sé guði að þakka, en ekki alþingi. En guð gerði engin sérstök undraverk á okkur; hann hefir ekki gefið oss annað en það sem við áttum skilið. Það var hægt að sjá þessa góðu niðurstöðu fyrir, þar sem alþingi lagði að eins fé til þarflegra fyrirtækja. Og eg er sannfærður um það, að þó að 1909 og næsta ár verði nokkuð tekjurýrari en undanfarin ár, þá fari þó á svipaða leið, að þau verði drýgri en menn búast við, eða meiri hlutinn býst við.

Háttv. frsm. vildi ekki gera mikið úr Rangá Það getur verið að hún sé ekkert verulega vont vatnsfall, en hún er þó með stærstu ám landsins. Vatnsmegin hennar hefir verið mælt og er 4 sinnum meira en í Norðurá, sem þó er alls ekki lítil. Það er ekki á rökum bygt, að auðvelt sé að fara með vagna yfir ána. Það má fara með flutning sem ekki má blotna, með því einu móti að leggja borð ofan á vagninn og hafa flutninginn þar ofan á. — Það er ekki of mikið sagt, að fólksfjöldinn, sem gagn mundi hafa af brúnni beinlínis, sé 1500 manns, auk þeirra Landeyjamanna, sem ekki verzla við Vestmanneyjar.

Ennfremur sagði háttv. þm., að sér þætti undarlegt að heyra menn tala um sparnað, en vilja þó ekki spara þegar til kæmi. Eg vil spara, en eg vil ekki spara til skaða fyrir þrif landsins, og eg vil ekki spara að óþörfu eða bara til að spara. Eg mun ekki vera meira fylgjandi »plan«-lausum fjárframlögum en háttv. þm. Ísf.; og ekki heldur er eg hneigður til að veita bitlinga út í loftið, en eg felli ekki með glöðu geði fjárveitingar, sem miklu varða fyrir þrif og menningarframfarir landsins. Rangárbrúna verð eg að skoða fyrirtæki sem er nauðsynlegt til verulegra menningarframfara fyrir sýsluna. — Það er alveg rétt, að þó að þingið hafi gefið loforð um þetta, þá er það ekki bundið við það, þannig að það sæti ábyrgð. En ef þing fara að taka upp þann vana, að brjóta í bág við undanfarandi þing með því að ganga frá loforðum þeirra, þá komast þau inn á vonda braut og hættulega, því með því væri kipt fótum undan því sem gerir störf þingsins mikilsverð, nefnilega samvinnunni og samhenginu milli hinna einstöku þinga. Við vitum það, að hvert einstakt enskt parlament gerir ekki mikið, en framhaldandi röð þeirra vinnur mikilsvert og blessunarríkt starf; ábyrgðartilfinning seinni þinga tengir þau saman við fyrri þing, og kemur á samræmi og samvinnu við þau.