02.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (612)

47. mál, löggilding verslunarstaða

Ágúst Flygenring:

Það er góðra gjalda vert af hinum háttv. framsögum., að hann ekki er því mótfallinn að löggilda Viðey. Þar sem honum virtist eg tala óráð, þar sem eg mintist á loftför í sambandi við löggilding Ósanna, þá get eg sagt þeim herra það, að það verður jafnsnemma farið á loftförum yfir hafið og nokkur fleyta þorir að fara inn á þær hafnleysur, því að þangað er engu skipi fært. Háttv. framsögum. gat ekki skilið, hvers vegna eg vildi skifta um orð. Skilning get eg ekki gefið honum — það mun ekki vera pláss fyrir hann —, en eg get sagt honum það að eins og menn nú ganga öðru vísi klæddir en fyrir 1000 árum, eins klæða menn nú hugsanir sínar í annan búning en á söguöldinni. Málið breytist eins og alt annað. — Það er eins og það stingi menn, þegar minst er á að löggilda Viðey. Eg sé ekki hvað ætti að vera því til fyrirstöðu, að taka löggilding Viðeyjar upp sem breytingartillögu hér, þótt frv. um það efni hafi fallið í Nd. Neðri deild hefir vit á að fella hana burt með breytingartillögu, ef henni svo sýnist, og þarf því þessum blessuðum Ósum, sem hinn háttv. þm. V.-Skaft. hefir tekið svo miklu ástfóstri við, engin hætta að stafa af því, þótt breytingartillaga mín verði samþykt. Eg þarf ekki að fara um þetta frekari orðum, enda stendur mér á sama um orðabreytingarnar.