30.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

50. mál, kirknafé

Stefán Stefánsson (6. kgk. þm).:

Það getur verið, að ýmsum þyki kynlegt, að hér kemur fram frumv. um að gefa einni kirkju undanþágu frá gildandi lögum, en af því, að eg er þessu máli að líkindum kunnugri en flestir aðrir háttv. þingdeildarmenn, skal eg leyfa mér að skýra málið með nokkrum orðum.

Eins og þeir muna, sem voru á þingi árin á milli 1890 og 1900, var oft talað um að losa landsjóð við kirkjur þær, sem hann átti, og var því lagt að söfnuðunum að taka kirkjurnar að sér; svo var og um Möðruvallakirkju. Þar var söfnuðurinn tregur til að taka við kirkjunni, því hún er stór og viðhald hennar dýrt. Eg átti sjálfur þátt í því máli, og vissi hvernig það fór fram.

Eg áleit það rétt, að söfnuðurinn tæki við kirkjunni og átti í þjarki um það í nokkur ár. Loks tók söfnuðurinn kirkjuna að sér með því skilyrði, að fúlga sú, sem landsjóður lagði kirkjunni, væri ávöxtuð í sparisjóði hreppsins, það þótti hagnaður að fá þetta fé inn í hreppinn. Eg hefi í höndum bréf sem þáverandi prestur þar skrifaði prófasti, og kemst hann svo að orði:

(Aths.: Bréfið hefir ekki verið innfært í ræðuna. Útgef.)

Það var bæði að söfnuðurinn vildi fá þetta fé inn í sveitina, og líka það, að vextir voru hærri í þeim sparisjóði, en annarstaðar. Nú hefir þetta staðið svo þangað til núverandi biskup fór að eiga við málið af nýju; þótti honum þessi ráðstöfun fara í bága við lögin um hinn almenna kirkjusjóð. En söfnuðurinn álítur nú að hann sé laus við kirkjuna ef féð er tekið; enda skil eg ekki að það skifti miklu, hvort féð er þarna í sparisjóðnum eða ekki, því þó það sé þar, þá getur kirkjustjórnin litið eftir hvernig með það er farið, og að full tryggilega sé um alt búið.

Eg hefi í dag talað við biskup um mál þetta, eg hefir hann ekkert á móti að söfnuðinum sé veitt þessi undanþága, ef frumv. aðeins verður breytt á þann hátt, að hún aðeins gildi meðan þessi kirkja stendur, eða með öðrum orðum, hann vill aðeins veita undanþáguna að því er þann sjóð snertir, sem nú er til, en siðar meir skuli þessi kirkja sömu lögum háð, sem aðrar, og mun eg við 2. umræðu koma með breytingartillögur, er færa frumv. það horf.