30.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

50. mál, kirknafé

Kristinn Daníelsson:

Mér þykir frumv. þetta athugavert. Það fer fram á breytingu á lögunum frá 22. maí 1890. Þau lög eru sett í því skyni að tryggja sjóði kirknanna, en þó jafnframt til þess að styðja kirkjubyggingar. Og það hefir aldrei verið jafnmikill áhugi sem nú, á að reisa og bæta kirkjur, og því aldrei meiri þörf en nú á því að styðja að samvinnu meðal kirknanna í því efni. Það er það sem lögin frá 1890 gera; þau mæla svo fyrir, að kirkjur skuli hafa forgangsrétt til lána úr kirkjusjóðnum; frá þessu ákvæði eru bændakirkjur einar undanskildar. Fyrir því þykir mér varhugavert að fara að víkja frá almennri reglu, þar sem ekki ber brýnar nauðsyn til en hér virðist vera. Háttv. 6. kgk. þm. sagði, að söfnuðurinn hefði tekið kirkjuna að sér með þessu skilyrði, en sé svo, hlýtur það að vera sprottið af vanþekkingu þeirra, er hlut áttu að máli, þar sem það er gagnstætt gildandi lögum. Væri þessi undanþága veitt, þætti mér réttara að það væri gert undir hendinni, en með lagaboði, enda mætti sjálfsagt koma því við, einkum þar sem biskup er málinu hlyntur, að því er háttv. 6. kgk. þm. skýrir frá. Vil eg því helzt, að frumv. verði felt, enda finst mér satt að segja helzti umsvifamikið að vera að veifa löggjafarvaldinu út af ekki meira tilefni en þessum 2000—3000 kr. sjóði Möðruvallakirkju.