30.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (628)

50. mál, kirknafé

Stefán Stefánsson (6. kgk. þm.):

Hinn háttv. þm. V.-Ísf. þarf ekki að vera hræddur um að fleiri kirkjur muni fara fram á slíka undanþágu, sem hér um ræðir, þótt þessi verði veitt, því að það stendur hvergi eins á og hér, það hefir engin kirkja verið afhent með þessu skilyrði nema Möðruvallakirkja. Og ef söfnuðurinn skilaði kirkjunni aftur, sakir þess að skilyrðinu væri ekki fullnægt, þá rynni sjóður Möðruvallakirkju í landsjóð, svo að kirkjusjóðurinn græðir ekkert á því, þótt neitað verði um undanþáguna. Ennfremur skal eg geta þess, að kirkja sú, er hér um ræðir, er meira en 40 ára gömul, og því ekki líklegt, að langt verði þar til byggja þarf hana af nýju, og þá fellur undanþágan burt. Auk þess finst mér það miður viðeigandi, að landstjórnin fari að rifta þeim samningi, er hún þegar hefir gert við söfnuðinn. Hinn háttv. þm. V. Ísf. kvað það mundu sprottið af vanþekkingu þeirra, er hlut áttu að máli, að samningurinn væri þannig úr garði gerður, að hann færi í bága við gildandi lög, en eg held ástæðan hafi öllu fremur verið sú, að landstjórnin vildi um fram alt losna við kirkjuna, og vér Möðruvallasóknarmenn treystum því, að óhætt væri að reiða sig á loforð stjórnarinnar. Eg vona að deildin að minsta kosti lofi málinu að ganga til 2. umræðu, svo mér gefist kostur á að koma fram með þær breytingartillögur við frumv., er biskup telur æskilegar.