30.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

50. mál, kirknafé

Sigurður Stefánsson:

Eg skal játa það, að upplýsingar þær, sem háttv. 6. kgk. þm. kom með, breyta dálítið afstöðu minni að því er þetta frv. snertir, því að annars er eg á sama máli og háttv. þm. V.-Ísf. um að sjálfsagt sé, að alt kirknafé sé lagt inn í hinn almenna kirknasjóð. álít eg því mjög óheppilegt að veita slíkar undanþágur, sem þá er hér var farið fram á. Mig undrar ekki þótt söfnuðurinn setti þetta skilyrði; á hinu furðar mig meira, að kirkjustjórnin skyldi ganga að því, en þó má virða henni það til vorkunnar, að henni mun hafa verið mikið kappsmál, að fá söfnuðinn til þess að taka við kirkjunni. Og eitt vildi eg enn taka fram í þessu sambandi, að Möðruvallakirkja getur naumast búist við að fá lán úr hinum almenna kirkjusjóði til endurbyggingar, og gæti það ef til vill komið sóknarmönnum óþægilega. Eg mun þó, vegna upplýsinga þeirra, er háttv. 6. kgk. þm. hefir gefið, greiða atkvæði með því að frumv. gangi til 2. umræðu, enda þótt eg í raun og veru sé málinu mótfallinn.