30.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

50. mál, kirknafé

Jósef Björnsson:

Hér finst mér að eins tvent mögulegt: annaðhvort hafi söfnuðurinn tekið við kirkjunni með þessum skilyrðum, sem til hafa verið nefnd og stjórnin lagt samþykki sitt þar á, að söfnuðurinn fengi hönd yfir kirkjusjóðnum, eða stjórnin hefir ekki samþykt skilyrðin, og þá hefir söfnuðurinn ekki tekið ennþá við kirkjunni. Þess vegna mun eg greiða atkvæði með frumvarpi þessu; og get eg einnig búist við, að ýmsir fleiri muni ekki kæra sig um að kippa samningnum upp eða rifta honum, og greiði því atkvæði með honum.