09.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

53. mál, sóknargjöld

Jósef Björnsson:

Frumvarp þetta er í raun og veru samið af milliþinganefnd þeirri, er skipuð var til að íhuga skattamál landsins; flutningsmenn hafa að eins vikið til örfáum orðum.

Málið er í raun og veru gamalt mál á þinginu, að minsta kosti að því er kirkjugjöld snertir. Það var fyrir þingi 1889, 1893 og 1894. Í umræðunum um frumv. það er lá fyrir 1893, var það tekið fram af aðalflutningsmanni þess, síra Þórarni Böðvarssyni, að tilgangurinn væri að gjöra gjöldin til kirkjunnar, er væru orðin mjög margbrotin, einfaldari og óbrotnari, gjöra þau að persónulegum gjöldum. Það sama hefir vakað fyrir skattamálanefndinni og flutningsmönnum þessa frumvarps. Oss virðist nauðsynlegt að gjöra gjaldmátann óbrotnari og réttlátt að gjöldin séu persónugjöld.

Það skal tekið fram, að óánægja með gjöldin til prests og kirkju hefir talsvert hreyft sér hjá þjóðinni, og er sú hreyfing að verða æ sterkari, að telja gjöld þessi hvorki réttlát né eðlileg. Og því verður ekki neitað, að sum gjöldin eru miður réttlát. Til dæmis má taka, að dagsverk, ljóstollur og ýms fleiri gjöld koma miður réttlátlega niður á gjaldendum. Annars mun eg ekki fara út í einstök atriði málsins að svo stöddu. Aðaláherzluna leggjum við flutningsmenn á það, að gjöldin eru orðin svo fjöldamörg (nál. 20), að það er bæði vafningasamt og óvinsælt að heimta þau inn, og á það, að megn óánægja er orðin með þau, einkum eftir að sóknarnefndir tóku við innheimtu sóknargjalda samkvæmt lögunum frá 1907.

Eg vona að háttv. deild taki frumv. með velvild. En með því að málið er í heild sinni mikilsvarðandi og athugavert mál, er það ósk mín, að það verði sett í nefnd að lokinni þessari umræðu, og mætti þá annaðhvort vísa því til nefndar þeirrar, er kosin var til að íhuga frv. til laga um breyt. á lögum um laun sóknarpresta, eða kjósa nýja nefnd.