25.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

53. mál, sóknargjöld

Jens Pálsson:

Eins og kunnugt er hefi eg ekki getað orðið meðnefndarmönnum mínum samferða. Eg hefi að vísu unnið að breytingunum við frumv. með þeim, og álít að þær séu til bóta, slíkt sem frumv. kom til deildarinnar. Hitt greindi okkur á um, að mér þótti ekki rétt að taka málið fyrir á þessu þingi og ráða því til lykta. Ástæður mínar hefi eg að mestu leyti tekið fram í nefndarálitinu.

Þetta mál var falið skattamálanefndinni til meðferðar. Hún hefir nú lokið starfi sínu, en tíminn hefir verið svo naumur, að þjóðin hefir alls ekki átt kost á að átta sig á þessu máli. Hugsandi menn þjóðarinnar hafa alls ekki haft tíma til að setja sig inn í skattamálin, svo að það hefði ekki verið rétt af stjórninni að leggja frumv. fyrir alþingi að þessu sinni. Úr því að þetta er eitt af þeim málum, sem skattamálanefndinni voru falin, þá var ekki rétt að slíta þetta mál út úr samhenginu og koma fram með það nú. Það voru allar sanngirniskröfur fyrir því, að þjóðin fengi nægan tíma til að íhuga öll atriðin í þessum skattamálum jafnlengi og rækilega. Það er því í fyrsta lagi þetta atriði, að málið er slitið út úr heild, sem mælir móti því, að ráða því nú þegar til lykta. Aftur á móti er sjálfsagt að sóknarnefndirnar fái að athuga málið og að það verði borið undir héraðsfundi fyrir næsta þing.

Öll gjöld til presta eru orðin svo úrelt, að þau ættu að nemast úr gildi. En í stað þeirra er í frumv. þessu farið fram á allþungt ójafnaðargjald til presta, því að nefskattur er ávalt erfiður og ranglátur skattur, þar sem ekki er tekið tillit til neins nema fólksfjöldans. Hann er ójafnaðarskattur, sem ekkert fer eftir efnum og ástæðum gjaldandans. Hann stendur ekki í sambandi við aðrar álögur, og eg fullyrði að nefskattur er að minsta kosti illa fallinn til að skapa úr honum þann fjárstofn, sem á að launa embættismönnum af. Og nú verður að álíta að prestar þjóðkirkjunnar séu embættismenn þjóðarinnar, að minsta kosti síðan lögin frá síðasta þingi hafa verið samþykt af Hans Hátign konunginum. Og íslenzka þjóðin í heild sinni viðurkennir, að prestastéttin sé stór-uppbyggileg stétt, sem hún ekki vill missa. Eg vil ekki spilla vinsældum hennar, en tel að því unnið með því, að taka í lög að launa hana með slíkum ójafnaðarskatti, sem þungur nefskattur er. Eg er af þessum ásæðum mótfallinn því, að málinu verði nú ráðið til lykta.

Ennfremur vil eg benda á, hversu það yrði eftir frumvarpi þessu örðugt í vöfum og dýrt, að heimta þessar 70—80 þús. kr. inn, sem á að launa prestunum með. Við eigum ekki að haga löggjöfinni svo, að of örðugt og vafstursamt verði að beita ákvæðum laganna; við eigum að varast að stofna til þess, að umsvifamikil opinber skyldustörf og ónærgætnislega harðar kvaðir leggist á einstaka menn, sem verða að fara í þessar lögskipuðu starfsnefndir og starfa í þeim án fulls endurgjalds; ella geta hlaðist svo nefndarstörf á suma menn, að þeim verði það þung plága. Eg tel það ónærgætni og álít það hreint og beint plágu fyrir fátæka bændur, sem oft og tíðum eru einyrkjar, eða því sem næst, er þeir, sem oft kann að henda, lenda í senn í þremur nefndum, sem mikilvæg störf eru falin, svo sem eru hreppsnefnd, fræðslunefnd og sóknarnefnd. Frumv. þetta leggur all örðugt og umsvifamikið og þar eftir vanþakklátt ábyrgðarstarf á hverja einustu sóknarnefnd í þessu landi, og tel eg það fyrirkomulag ísjárvert.

Hér á landi eru hér um bil 280 sóknarnefndir og í þeim hérumbil 850 menn. Það mundi láta nærri, að sérhver sóknarnefndarmaður yrði að leggja til 3 dagsverk til innheimtunnar, eða með öðrum orðum 2500 dagsverk á öllu landinu. Sé dagsverkið greitt með 3 kr., þá kostaði innheimtan 7500 kr., og gengju þá um 10% í súginn af upphæðinni í innheimtu.

Annað atriði, sem líka kemur til greina um nefskattinn, er það, að prestaköll eru orðin víðáttumikil og sum ærið mannmörg; örðugleikar við innheimtu yrðu því víða all miklir.

Ef eg ætti að greiða atkvæði um málið, þá yrði eg með öllum br.till. nefndarinnar, því þær eru til verulegra bóta; en lengra mundi eg ekki fylgja nefndinni, heldur greiða atkvæði gegn því, að frv. færi út úr deildinni.

Eg vildi taka þetta fram, því að háttv. framsm. meiri hlutans mintist ekki álits minni hlutans.