25.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (682)

53. mál, sóknargjöld

Framsögumaður (Sig. Stefánsson):

Eg vildi gjarnan láta þess getið, sakir orða þeirra, er féllu frá háttv. 5. kgk. þm., að það er ekki tilgangur nefndarinnar með tillögum þessum, að bæta hag prestastéttarinnar. Prestar eru nú komnir á föst laun, og fá þau, hvort sem sóknarnefndum gengur innheimta vel eða illa. En eg vildi gera sóknarnefndunum innheimtuna sem léttasta, og það vilja auðvitað allir prestar. Nú eru innheimtustörf þessi, sem á sóknarnefndunum hvíla, ærið margbrotin og erfið. Háttv. 5. kgk. þm. sagði að prests- og kirkjugjöld kæmu á þennan hátt harðast niður á fátækasta hluta þjóðarinnar.

En hvað er fátækasti hluti þjóðarinnar? Um það verða víst skoðanir manna ærið skiftar. Það er í meira lagi vafasamt, hvort vinnumenn og lausamenn eru ekki eins vel — eða jafnvel betur — staddir í efnalegu tilliti en vinnuþiggjendur. Menn verða að gæta þess, að nú er kaupgjald orðið mjög hátt, og hækkar altaf sakir hinnar vaxandi eftirspurnar eftir vinnukrafti. Enn hefir það verið sagt, að ósanngjarnt væri að leggja á þessa menn — vinnumenn og lausamenn —, þar sem þeir ættu enga fulltrúa á þingi, og hefðu ekki atkvæðisrétt um almenn mál, en það kemur auðvitað oft og einatt fyrir, að opinberar byrðar eru lagðar slíkum mönnum á herðar, og er því sú mótbára einkis virði í þessu máli. — Auk þess má geta þess, að þetta verða því nær hinar einu skattálögur, sem á þessum mönnum hvíla. Eg skal að vísu játa, að gjöld þessi geta komið harðara niður á stöku mönnum en skyldi, t. d. þeim er eiga fyrir örvasa foreldrum eða öðrum gamalmennum að sjá, en hitt get eg ekki talið neitt hart aðgöngu, þótt foreldrar verði að borga fyrir börn sín, þau er 15 ára eru eða eldri. Þegar börnin eru komin á þann aldur, þá eru þau farin að vinna heimilinu svo mikið gagn, og eftirsóknin eftir að fá þau frá foreldrunum í vistir orðin svo mikil, að þeir foreldrar mega teljast hepnir, sem geta haldið þeim, þótt þeir fyrir bragðið verði að borga þennan lítilfjörlega skatt.

Í mínum augum skiftir það ekki miklu, hvort frumvarpið nær fram að ganga á þessu þingi eða ekki, þó kysi eg heldur, að svo yrði. Auðvitað væri ekkert á móti því, að þjóðin fengi málið til athugunar; en hinu verð eg að neita, að það standi í svo nánu sambandi við skattamál landsins í heild sinni, að ekki megi ráða því til lykta á undan hinum nýju skattalögum.