07.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

53. mál, sóknargjöld

Framsögum. (Sigurður Stefánsson):

Nd. hefir breytt þessu frumv. heldur til skaða. Breyt.till. eru nú við það á tveim þgskj., en önnur breyt.till. hefir verið tekin aftur. Aðalbreytingin, sem neðri deild hefir gert á frumv., er að víkka undanþáguna til allra þeirra, sem utan þjóðkirkju eru, svo framarlega sem þeir borga 2 kr. til sjóðs til eflingar trú sinni, og skal sá sjóður hafa skipulagsskrá staðfesta af ráðherra. En með því er grundvellinum alveg kipt undan kirkjugjöldunum, því að það er ofurhægt fyrir nokkra menn í hverri sveit að stofna fræðslusjóð og fá skipulagsskrána staðfesta af ráðherra, og þá getur engin kirkja bygt neitt á tekjum sínum, því að alt er í óvissu, en að því er prestsgjöldin snertir, lendir hallinn á landsjóði. Þessi breyting gæti að vísu verið eðlileg að því er einstaklingana snertir, en hún passar ekki inn í það gjaldafyrirkomulag, sem vér höfum, svo að nefndin verður að ráða til að hún falli burt.