17.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

55. mál, dánarskýrslur

Ráðherra (H. H.):

Sams konar frumv. lá fyrir Nd. á síðasta þingi og var þar samþykt með miklum atkvæðamun. En þegar frumv. kom hingað til Ed. var það felt.

Stjórnarráðið hefir verið þeirrar skoðunar, að frumv. væri gagnlegt, og að með ákvæðum þess mundi nást allgóður árangur í tilætlaða átt, með tiltölulega mjög litlum kostnaði og erfiðleikum. Læknar, og sérstaklega landlæknir, hafa lagt mikla áherzlu á að fengist gætu skýrslur um dauðaorsakir manna hér á landi, og hefir oft verið reynt að fá því framgengt. Stjórnin hefir þrisvar, á alþingi 1891, 1893 og 1903, lagt fram frumvörp um líkskoðun, en málið hefir verið felt eða óútrætt, og þótti það hafa of mikil umsvif í för með sér. Í þess stað kom þá fram fyrst 1903, síðar 1907, frumv. um dánarskýrslur, og var í bæði skiftin samþykt í Nd.

Stjórnarráðinu hefir ekki þótt þurfa neina efnisbreytingu á frumv., er Nd. samþykti í fyrra, og leggur það nú óbreytt að efni til fyrir þetta þing.

Með því að það mun vera rétt, að það hafi verið nokkuð sérstakar ástæður, sem voru þess valdandi, að frumv. féll í Ed. í fyrra, og nú eru hér nýir kraftar, þá vona eg að það eigi í þetta skifti betri byr fyrir höndum hjá hinni háttv. deild.