03.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

55. mál, dánarskýrslur

Framsögum. (Sigurður Hjörleifsson):

Það hefir litlu öðru verið hreyft um þetta mál hér í deildinni heldur en andmælum. En það hafa þó ekki komið næg rök gegn því, til þess að eg geti breytt skoðun minni. Það var minst á það áðan, að til væru lög, er skipuðu fyrir um að skýrt skuli frá úr hverju alidýr deyi, og það var sagt, að þessi lög hafi reynst þýðingarlaus og komið að engu gagni.

Hér er um annað að ræða, því það er þó algengast að alidýr drepist af því, að skorið er af þeim höfuðið, en þetta á sér þó ekki að jafnaði stað um menn; og sýndist ekki hafa minni þýðingu að vita úr hverju þeir dæju.

Eg legg ekki svo mikla áherzlu á það, að prestar skrifi um dauðamein manna, en eg legg mikla áherzlu á skýrslur prestanna. Því að prestar geta auðvitað ekki sagt neitt nákvæmlega eða lagt áreiðanlegan úrskurð á um banamein fólks, en þeir geta skrifað nöfn þeirra sem deyja í skýrslurnar. Og þetta mundi strax verða læknunum til mikillar hjálpar, því að þeir þekkja flesta sjúklinga bæði í þeirri sókn, sem þeir eru sjálfir í, og eins í hinum sóknunum í héraðinu, að minsta kosti þá, sem hafa verið veikir af einhverjum «chroniskum« sjúkdómum. Læknarnir hafa stundað sjúklingana svo mikið áður, að þeir vita nægilega úr hverju þeir deyja.

Læknar eru alls ekki að ásælast meiri tekjur með þessu frumv., heldur að eins að koma betra skipulagi á heilbrigðismál landsins.