03.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

55. mál, dánarskýrslur

Ágúst Flygenring:

Eg vildi með nokkrum orðum minnast á það, sem háttv. þm. V.-Skaftf. sagði. Það sýnist svo sem honum sé örðugt að finna ástæður fyrir því að þetta frv. sé eins ónauðsynlegt og hann vill telja það. Eg tel þetta nú samt ekki nema eðlilegt, því að maður rekur sig ávalt á, að það verður að þekkja fortíðina ef maður á að geta haft nokkra hugmynd um framtíðina. Svo er í öllum öðrum löndum; þar er öll hagfræði bygð á fortíðinni. En hér á ekki að sinna slíku, þegar er að ræða um sjúkdóma og líf manna, og þó er lífið álitið dýrmætast. Eg veit ekki á hverju á að byggja, þegar verið er að veita fé til læknastéttarinnar eða til þess að útrýma ýmsum sjúkdómum. Það er ómögulegt að sjá, hve mikil þörfin er eða hvar hún er mest, einmitt af því að allar skýrslur vantar. Það er t. d. nú ómögulegt að vita það með neinni vissu, hvað mikið hefir verið af berklaveikum sjúklingum í landinu fyrir 10 árum. Og af því leiðir að enginn veit hvort veikin er í rénun eða ekki.

Frá hagfræðislegu sjónarmiði verður að sinna þessu. Það hafa allir játað, sem talað hafa, hve afar mikilsvert það væri að ganga á móti ýmsum sjúkdómum hér á landi, en til þess verður að leita á undan allra þeirra upplýsinga, sem hægt er að fá, til þess að geta ráðið bót á þeim síðar.

Eg get verið þm. samdóma um að almenn skyldulíkskoðun ætti að vera lögleidd, og eg skyldi vera því máli fylgjandi. Hér er að eins stigið lítið spor í áttina, því að skyldulíkskoðun verður einungis í þeim sóknum þar sem læknar búa.

Menn eru hér að tala um kostnað, og telja á sig snúninga, sem leiða af þessum lögum. Jú, það er 1 kr. fyrir hverja líkskoðun. Þá fara mannslífin að verða ódýr, þegar ekki þykir leggjandi í sölurnar 1 kr. virði fyrir að vita með vissu hvort maður er dauður eða lifandi! Það þótti nauðsyn á lögunum um alidýrasjúkdóma, en um þetta hirða menn ekki. Ef hundur drepst á bæ, þá á sjálfsagt að gefa skýrslu um það, en ef bóndinn deyr, þá varðar engan um það. Eg get ekki betur séð, en að það sé hreint og beint hræðilegt að vita ekkert um það, úr hverju menn deyja. Menn gætu verið drepnir svo enginn vissi. Í öðrum löndum eru fjöldamörg dæmi þess að glæpir hafa komist upp einungis vegna líkskoðunarinnar.

Frumv. hefir verið talin árás á privatlíf manna. Það ætti t. d. að draga fram ýmsar meinsemdir, sem menn vildu leyna. En um þesskonar sjúkdóma, t. d. »Sílis« og aðra viðbjóðslega sjúkdóma, ættu læknar einmitt að fá vitneskju og koma þeim í skýrslur.

Þess sama gætir ef litið er á málið frá mannkærleikans sjónarmiði. Það getur t. d. átt sér stað að maður lægi veikur á heimili hjá öðrum, og það væri álitið á heimilinu að um næman sjúkdóm væri að ræða, þá gæti vel farið svo að sjúklingurinn yrði að deyja hjálparlaus, bara af því að húsráðendur vildu forðast að láta vita af því, að næmur sjúkdómur væri á heimilinu. Þetta getur vel viðgengist einmitt af því að ekki þarf að óttast dánarskýrslur. Líkið fer óskoðað í gröfina.

Jeg er hissa á því að menn skuli segja rétt út í bláinn að það sé sjálfsagt að fella þetta frumv., en eru þó í öðru orðinu að tala um að fjölga læknum og bæta heilbrigðismálefni landsins. En þeir gæta þess ekki að í þessu frv. liggur einmitt undirstaða allra þeirra mála.