03.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

55. mál, dánarskýrslur

Ráðherra (H. H.):

Háttv. þm. V.-Ísf. fann frumv. það til foráttu að það hefði verið felt svo oft áður. En þau frumv. sem voru feld á þingunum 1891, 1893 og 1903 voru víðtækari, og fyrirkomulag það, sem þau fóru fram á, kostaði miklu meira. Á Alþingi 1907 var svo nýtt frv. til meðferðar með alveg nýju sniði, þar sem reynt var að synda fyrir þá agnúa, sem áður höfðu þótt á frumv. En þetta frv. var þá felt hér í Ed., eftir að því hafði verið tekið með virtkum af háttv. Nd.

Það er ekkert að byggja á því, sem háttv. þm. V.-Skaftf. sagði um fólksfjölda í þeim sóknum, sem engir læknar væru í; því að þær sóknirnar, sem læknar eru í, eru svo stórum miklu fjölmennari en hinar, sem læknislausar eru. Það má taka til dæmis Reykjavík eina. Hér eru 12% af öllu fólki á landinu. En í þeim sóknunum þar sem prestar hefðu skýrslurnar á hendi, yrðu þær líka til mikilla bóta, því prestarnir mundu að sjálfsögðu reyna að útvega sér eins góðar upplýsingar, eins og hægt væri að fá, áður en þeir skrifuðu skýrslur sínar.

Eg held að það sé óþarfa hræðsla hjá háttv. þm. Ísf., að það gæti leitt til þess að alls ekki mætti jarða lík, ef þetta frumv. yrði að lögum. Það verður ekki lögð svo greypileg merking í orðið »standa«, heldur mun tekið gilt vottorð læknis, sem á einhvern hátt hefir skift sér af sjúklingnum.

Eg sé ekki að hægt sé að fella burt 1. gr. frumv., því það yrði þá algerlega ónýtt.