03.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

55. mál, dánarskýrslur

Jens Pálsson:

Mér er mjög illa við öll óþörf skrif og sérstaklega allar óþarfar skýrslur. En það er langt frá því að skýrslur þær, er ræðir um í þessu frumv., séu óþarfar. Nauðsyn krefst þeirra beinlínis. Að grafast eftir sönnum sjúkdómsmeinum, eftir því hvað mönnunum verður að bana, er að mínu áliti einhver veglegasta eftirgrenslan sem til er. Gegnum hana öðlast menn vísbending um, af hverjum sjúkdómum lífi manna stafi mest hættan, og við hverjum sjúkdómum varnir þurfi mestar og beztar. Markmiðið, sem að er keppt með slíkri eftirgrenslan er að vernda og lengja mannslífin, og veglegt er það markmið.

Jeg var á móti gömlu frv., ekki málsins vegna, heldur fyrirkomulags þess, er farið var fram á í þeim; það var bæði örðugt og dýrt. En það fyrirkomulag, sem ræðir um í frumv. því, er hér liggur fyrir, er að mínu áliti praktískt og gott. Mun lítið vanta á að tilgangurinn um áreiðanlegar skýrslur náist með því, þar sem því nær helmingur af sjúkdómstilfellum fellur í sóknum, sem læknar eru í. Prestar munu gjöra sitt ítrasta til að komast að góðri niðurstöðu. Þeir standa, að læknum undanskildum, bezt að vígi með að gefa slíkar skýrslur, þar sem þeir standa í nánustu sambandi við sóknarfólkið, og eru mentaðir og viljagóðir menn. Þeir hafa og samkv. embætti sínu skyldu til að leysa þetta vel af hendi.

Eitt þykir mér að frumv. Eg hefi ekkert á móti því að þessu sé bætt við störf prestanna; en mér þykir vanta í 1. gr. ákvæði um það, að prestar geti ávalt snúið sér til hins opinbera embættislæknis. Eins og allir vita, kalla fleiri sig lækna en það nafn eiga skilið, t. d. stúdentar er hafa lesið eitt eða tvö ár, hómópatar o. fl. Vildi eg að þeir gæfi héraðslækni skýrslur, og hann svo presti, svo að prestur ætti alt af aðgang að héraðslækni. Mér væri kært ef nefndin vildi taka þessa athugasemd til greina.

Annars skal eg ekki fjölyrða meira um frv., en vona að það verði samþykt.