03.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

55. mál, dánarskýrslur

Gunnar Ólafsson:

Háttv. framsögumaður meiri hluta nefndarinnar er mér samdóma um það, að læknum muni yfirleitt vera kunn dauðamein manna í héruðum þeirra, og styrkir það mitt mál, að frumv. þetta sé óþarft.

Eg felli mig vel við breyt.till. háttv. þm. V.-Ísf., um að fella burtu 1. gr. frumv.; hún má missa sig, enda tel eg frumv. þá fallið, þegar af er höfuð þess.

Háttv. 3. kgk. þm. hélt fremur áminningarræðu en röksemdaræðu. Ástæður bar hann engar fram. Hann sagði meðal annars að nú væri ekkert á að byggja í þessu efni, nefnil. um dauðamein manna, og kallaði það skrælingjahátt að vilja fella þetta frumv., ásamt fleiru af því tagi. En að mínu áliti verður ekki meir á að byggja þó frumv. yrði að lögum. Prestar hafa ekkert vit á því sem þeir eiga að gefa vottorð um. Skýrslurnar geta litið nógu vel út, en grundvöllurinn undir þeim er skakkur, því þeir menn eiga að votta, sem ekki geta það; en skýrslur eru því að eins gagnlegar, að þær séu réttar.

Annars ímynda eg mér að of mikið sé gjört úr nauðsyninni á dánarskýrslum. Læknar geta oft ekki séð úr hverju hinn látni hefir andast. Hitt er miklu þýðingarmeira að vita hvaða sjúkdómar eru algengir í landinu. Og það geta læknar einir gefið skýrslur um. Þeir eiga að rannsaka sjúkdóma og heilbrigðisfar í landinu, og það gjörist ekki eingöngu með því að lík séu skoðuð, litið á þau snöggvast, heldur og aðallega með því, að læknar gefi nákvæmar glætur að sjúkdómum í landinu og dauðameinum manna.

Það hefir verið talað um að í þeim 43 sóknum, sem læknar sitja í, búi alt að 50% af íbúatölu landsins. Eg hygg að það sé ekki rétt; það er varla meir en 25—30%.

Eg fjölyrði ekki meira um frumv. en vona að það verði ekki samþykt.