03.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

55. mál, dánarskýrslur

Ari Jónsson:

Eg lít svo á, sem frumv. þetta nái eigi að fullu tilgangi þeim, sem æskilegur væri og þeir menn hafa haft í huga, er fengist hafa við slík frumv. á fyrri þingum. Á þingum þeim, er fjallað hafa um málið, hafa menn aðallega haft tvent fyrir augum, nfl. að koma á líkskoðun og að koma því til vegar að dánarskýrslur yrðu gjörðar.

Þetta frv. nær að mestu leyti síðara markmiðinu. Eg tel víst að talsvert áreiðanlegar dánarskýrslur mundu geta fengist með því fyrirkomulagi sem farið er fram á í frumv. En þörfin á lögum um líkskoðun er jafn mikil eftir sem áður, þó frumv. verði að lögum. Það takmark næst ekki með því.

Æskilegast væri að hvorttveggja kæmist á sem fyrst. En þótt frumv. fullnægi að eins annari kröfunni, tel eg það vera þó svo gagnlegt spor að eg ræð til að það verði samþykt.