05.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

55. mál, dánarskýrslur

Kristinn Daníelsson:

Af því að enginn tekur til máls og eg á hér br.till., þá leyfi eg mér að segja nokkur orð. Eg þarf ekki að tala langt mál, því að eg hef gert grein fyrir br.till. mínum við síðustu umræðu málsins hér í deildinni. Þess var getið í umræðunum, að málið hefði oft legið fyrir þinginu og tekið margskonar breytingum, og það er rétt. Fyr hefir það verið kallað frumv. til laga um líkskoðun, en nú frumv. til laga um dánarskýrslur. Líkskoðun átti að vera til þess að menn yrðu ekki kviksettir, en þá var ekki haft fyrir augum að fá hagskýrslur. Nú er meiningin að bæta úr skortinum á hagskýrslum. Eg vil með br.till. mínum gera þetta meira en nafnið tómt, taka burtu líkskoðunina en halda dánarskýrslunum. Mín br.till. fullnægir aðaltilganginum, sem nú liggur fyrir, að fá eins góðar hagskýrslur og frekast er hægt. Þó að líkskoðun sú, sem frumv. gerir ráð fyrir, fari fram, leiðir þar af ekki, að læknar komi nálægt öllum dauðsföllum.

Til þess að komast hjá vafningum við jarðsetningu og óþarfa kostnaði, sem gæti, þó að ekki sé hann mikill, vaxið mörgum í augum, kem eg fram með mínar br.till. Eg leyfi mér því að leggja þessar br.till. fyrir deildina, og vona að hún samþ. þær, þar sem þær munu vera til bóta, og frumv. með þeim fullnægja tilgangi sínum.