05.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

55. mál, dánarskýrslur

Ágúst Flygenring:

Eg tók svo eftir, að háttv. þm. V.-Ísf. segði síðast, að frumv. færi of skamt til þess að það yrði að fullum notum. En hann væri ekki á móti frumv. í »realitetinu«. Hann hélt að prestarnir kæmu eins nærri því sanna og læknarnir. Þetta er alveg ný kenning. Því að það er alment álitið, að það sem læknar segja um dauðamein, sé það, sem byggja má á, en naumlega á skoðun prestanna. Ef þetta er rétt, þá geta hagskýrslurnar ekki verið góðar, ef prestar gefa þær einir. Eg er þess vegna algerlega á móti br.till. Okkur vantar skýrslur um úr hverju menn deyja, en ekki um hversu margir menn deyja — það vitum við. Það er ekki helmingur þeirra sem deyja skoðaðir af lækni. Og þetta frv. með þessum br.till. yrði algerlega til þess að bægja læknum frá að skoða lík. Eg ræð því eindregið til að br.till. verði feldar.