18.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

56. mál, byggingarsjóður

Ráðherra (H.H.):

Þegar alþingi 1905 samþykti frv. stjórnarinnar um að stofna byggingarsjóðinn með því að gefa Arnarhólstúnið og Örfirisey til þess að koma upp húsi yfir söfn landsins o. fl., áleit stjórnin að hægt mundi verða að selja Arnarhólslóðina á 3 kr. ? al.: En Nd. þingsins færði lágmarkið upp í 4 kr. ? al., og Ed. upp í 5 kr. ? al. Þá voru lóðir yfirleitt í háu verði hér í bæ; og stafaði það mikið af því, að þá hafði fundist gullvottur í nánd við bæinn. Þá voru allmiklar »spekulationir« í lóðum, og er sennilegt, að stór svæði úr Arnarhólstúninu hefðu skjótt verið keypt upp, hefði verðið verið nokkurn veginn skaplegt. En af því að byggingarpláss er mjög misjafnt á hinu stóra Arnarhólstúni, sumt jafnvel mjög óálitlegt og ólíklegt til bygginga í bráð, og enga ferhyrningsalin mátti eftir lögunum selja undir 5 kr., fór svo, er stjórnarráðið lét fram fara mat það, er lögin einnig binda söluna við, að það af túninu, sem betur liggur fyrir verzlun og bygging, var metið miklu hærra, stórir flákar jafnvel á 15 kr. alinin. En þetta var ofvaxið kaupendum, og nú eru liðin svo 3 ár full, að engin ? al. er enn þá seld og ekki útlit fyrir að neinn geti keypt, nema lágmarkinu verði breytt, og nýtt mat fari fram á þeim grundvelli. Ella er ekki annað að sjá en að túnið verði arðlaus eign byggingarsjóðsins, en þetta má ekki lengur standa. Ef fært væri niður lágmarkið, þá væri það sennilegt að svo mikið seldist, að hægt væri að borga safnhúsið, og lögin um stofnun byggingarsjóðsins mundu ná tilgangi sínum. Eg hefi heyrt sagt, að því hafi verið haldið fram á þingmálafundi hér í Reykjavík, að ef lækkað væri lóðarverðið á Arnarhólstúni, mundi það hafa í för með sér verðfall á lóðum yfirleitt og tjón fyrir lóðareigendur í Reykjavík. En þetta er aðeins grýla. Menn verða að muna eftir því, að hér er aðeins um lágmark að ræða, alls ekki um heimild til þess að selja lóðir í túninu skilyrðislaust fyrir þessa upphæð, sem tiltekin er í frv. Stjórnin er auk þess bundin við það ákvæði, að hún má ekki selja neitt undir því verði, er dómkvaddir menn meta. Það er aðalákvæðið. Upphæðin, sem tiltekin er, er lágmark matsverðs. Nú er það auðsætt, að matið mundi miðað við söluverð lóða í bænum yfirleitt, og er því miklu réttara að segja, að horfurnar hér um lóðir alment hafi áhrif á væntanlegt söluverð Arnarhólslóðanna, heldur en þvert á móti. En að halda Arnarhólstúni í vitlausu geypiverði, aðeins til þess að reyna að halda uppi tilbúnu, óeðlilegu verði á lóðum alment, væri ekki rétt. Það er miklu hollara almenningi, að fylgt sé heilbrigðum verðreglum í því sem öðru. Eg vonast því til, að sú æsingafluga, sem reynt hefir verið að kveikja hér í Reykjavík út af þessu máli, eigi ekki mikinn viðgang fyrir hendi, og að frumvarp þetta verði samþykt eins og það liggur fyrir.