22.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

57. mál, lögaldur

Lárus H. Bjarnason:

Enda þótt þetta frumv. sé stutt, ekki nema 3. gr., meira að segja ekki nema 3 línur, er það þó ærið aðgæzluvert. Ef það yrði að lögum, mundi það leiða til hvorki meira né minna en fullkominnar byltingar í mörgum efnum. Svona frumv. ætti því í rauninni að vera undirbúið í milliþinganefnd, eða að minsta kosti að koma frá stjórninni. Hér þarf að svo mörgu að gæta, að það er tæplega þingmanna meðfæri að semja slíkt frv. undirbúningslaust. Það þarf langan umhugsunartíma um svona mál og meiri sérþekkingu en þingmenn alment hafa til brunns að bera. Og að afgreiða þetta frumv. frá þinginu nefndarlaust nær að minsta kosti engri átt. Ákvæði löggjafar vorrar um myndugleika koma mjög víða við og eru mjög svo dreifð. Því gæti komið til mála að taka upp í frv. þetta hin gildandi ákvæði Kr. V. laga 3—17, 1—23—9, 1—23—12, breytt eða óbreytt, tilskipun 18. febr. 1847, opið bréf 4. jan. 1861 og ýms yngri lagaákvæði, t. d. þar til heyrandi ákvæði úr lögum 12. jan. 1900 um fjármál hjóna. Auk fjárhagslegs myndugleika er og til persónulegur myndugleiki, og gæti því einnig komið til mála að taka þau ákvæði, er gilda um þann myndugleika, upp í frv.

Og væri farið svo langt, lægi ef til vill næst að safna saman í frumv. öllu því, er gilda ætti um allan myndugleika. En það gæti aftur leitt til ýmsra nýmæla, t. d. til þess að breyta ákvæðunum um svifting fjárforræðis, að taka það frá umboðsvaldinu og fela það annaðhvort dómstólunum eða sérstökum dómstólum, eins og t. d. í Norvegi, Svíaríki og Þýzkalandi. Breytingar þær, sem frumv. fer fram á, eru að vísu víða kunnar. Lögaldur er víða 21 ár, t. d. í Svíþjóð, Norvegi og Þýzkalandi, og eins er sumstaðar ekki gjörður greinarmunur á alræði og hálfræði í fjármálum, t. d. ekki á Englandi og í Svíþjóð.

En þó gæti það ef til vill verið varhugavert að afnema millibilsástandið, að sleppa hálfmyndugleikaskeiðinu. En einkum er það varhugavert að leyfa 21 árs gömlum mönnum að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð, eins og frumv. ætlast til. Nú er það bundið við 25 ára aldur. Þó að lögaldursleyfi sé veitt, tekur það ekki til sjálfskuldarábyrgðar. Mönnum er hættara við að brenna sig á ábyrgð en eigin lánum. Menn geta látið leiðast út í ábyrgð, af því að þeir búast ekki við að verða fyrir skaða, en lána miklu sjaldnar fé til þess að lána það öðrum. Þá væri það og viðurhlutamikið, að leyfa 21 árs gömlum mönnum að vera fjárráðamenn ómyndugra, en til þess ætlast frumv. nú líklega ekki. Mér finst þannig sjálfsagt að skipa nefnd í málið, og leyfi eg mér að stinga upp á 3 manna nefnd.