25.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

58. mál, skoðun á síld

Sigurður Hjörleifsson:

Frumv. þetta, sem eg leyfi mér að leggja fyrir hina háttv. deild, er mjög skylt því frumv., er hæstv. ráðherra lagði fyrir deildina, nfl. frumv. til laga um fiskimat. Að vísu teldi eg það eðlilegast, að stjórnin hefði lagt þvílíkt frumv. fyrir þingið. Og eg er viss um það, að ef hreyfing hefði komið á málið fyr, mundi stjórnin hafa verið fús á að leggja fyrir þingið frumv. í þessa átt.

Þessi atvinnuvegur, síldveiðin, er tiltölulega nýr. Hann er mest stundaður fyrir Norðurlandi, við Eyjafjörð. Mál þetta hefir því mikla þýðingu fyrir útgerðarmenn og einnig fyrir verkamenn og nú fyrir landsjóð. Það þarf ekki að færa rök að því, að það hefir mikla þýðingu fyrir útgerðarmenn; það liggur í augum uppi, að fjárhagur þeirra er bundinn við þennan atvinnuveg. En eg vil benda á hversu mikla þýðingu hann hefir fyrir verkafólk. Hver tunna af síld, sem út er flutt, skilur eftir 1 kr. —1,50 kr., sem borgað er í verkalaun, söltun, geymslu og útskipun. Árið 1907 voru rúml. 200,000 tn. af síld fluttar út og 1908 180,000 tn. Það er því auðsætt, að það er afarmikið fé, sem veltur á, þar sem síldveiði er stunduð. En ekki getur landsjóði heldur staðið á sama, hvernig þessum atvinnurekstri gengur. Árið 1907 var tollur af útfluttri síldartunnu hækkaður upp í kr. 0,50, og þannig fekk landsjóður 1907 rúml. 100,000 kr. í toll, og 1908 um 90,000 kr.

Tvö síðustu árin hefir tap orðið á þessum atvinnuvegi, og liggur í augum uppi, að sá atvinnuvegur getur ekki þrifist eða haldist við, sem tap er á svo árum skiftir. Landsjóður á því á hættu að hann missi þessar ríflegu tekjur að meira eða minna leyti. Bending er það líka, að þó uppgrip væru af síld síðastliðið sumar, þá minkaði þó veiðin af því að ekki þótti borga sig að veiða meira, af því verðið var svo lágt. Orsakir þess, að verðið verður lágt, geta verið margar, t. d. alment verðfall, offylli á markaðinum, og það, að varan er ekki eins góð og hún á að vera og þarf að vera. Nú skýra sjálfir útgerðarmennirnir frá því, að varan sé ekki góð, og þeir hafa gildar sannanir fyrir því. Og þetta er eðlilegt, þegar litið er á staðhætti og veiðiaðferðir. Veiðiaðferðimar eru breyttar frá því sem áður var. Áður var síld veidd í nætur og net, en nú mest í herpinætur og reknet. Síldin kemur oft skemd að landi, og þegar síldin liggur í landi, vill brenna við að hún morkni áður en hægt er að salta hana. Þegar uppgripin eru mikil og landburður daglega, er hætt við að hún skemmist, þegar ekki fæst fólk til að verka hana nógu snemma. En þeir, sem hafa veitt, kinoka sér við að kasta henni í sjóinn aftur. Síldin getur litið sæmilega út, en þó verið skemd. En skemdin kemur fram þegar á markaðinn kemur, og veldur þá verðfalli, og það á allri síld.

Frumv. er samið eftir tillögum útgerðarmanna nyrðra, og samþykt á þingmálafundi og í bæjarstjórn Akureyrar að skora á alþingi að sinna frumv. Þetta frumv. er ekki svo mikið nýmæli, eins og menn skyldu ætla, því að helztu síldveiðaþjóðir hafa sett lög og reglur fyrir síldarveiði, til þess að stuðla að því að síldin yrði góð vara, t. d. Noregur, Skotland og Holland.

Aðferðirnar til þess að tryggja það að síldin verði góð eru: verðlaun, skylduskoðun og kjörskoðun. Reglurnar hafa haft mikla þýðingu; varan hefir batnað og kaupmenn geta komist hjá því að selja vöruna í umboðssölu; hér geta þeir nú notað símann; menn þurfa ekki að senda vöruna fyr en þeir geta selt, og komast hjá að senda hana þangað, sem enginn markaður er fyrir vöruna. Frumv. fer fram. á skylduskoðun á allri síld, sem veidd er í herpinót og reknet, en undantekur síld, er veidd er í lagnet og önnur net, Kjörfrjáls skoðun mun nú tíðkast í Norvegi og Skotlandi. Það er ætlast til þess, að landsjóður beri kostnaðinn við skoðun síldarinnar. Hann er áætlaður 10 til 12 þús. kr. Það er allmikið fé, en gæta verður þess, að landsjóður græðir mikið á þessari atvinnugrein, en atvinnuvegurinn getur ekki borið sig. Eg tel því sjálfsagt fyrst í stað, að láta þennan kostnað hvíla á landsjóði. En síðar verða að líkindum gerðar breytingar á lögunum, og ef útvegurinn þolir það, mætti þá breyta þessu, og láta gjöldin einnig lenda á framleiðendunum. En ennþá eru þeir ekki færir um það. En aðalatriðið er það, að hin háttv. deild taki frumv. vel og líti sanngjörnum augum á málið, og greiði fyrir því sem bezt.