25.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

58. mál, skoðun á síld

Steingrímur Jónsson:

Eg get ekki sagt um hvort eg er ánægður með einstakar greinar frumv., en vil að eins taka fram, að eg tel það sem þm. Strand. tók fram viðvíkjandi 3. gr. og ummæli háttv. 3. kgk. þm. á góðum rökum bygt. En eg stóð upp af því að þetta mál að minni hyggju er mjög þýðingarmikið, og vona eg að deildin taki það til meðferðar og bæti úr þeim agnúum, sem á því kunna að vera.

Þetta mál er ekki að eins þýðingarmikið fyrir landsjóð og verkafólk það, er atvinnu hefir af síldarverkun, en það sem mestu varðar er, að stór hluti landsins, og þá einkum Akureyri og Eyjafjarðarsýsla, hefir lagt svo mikið fé í þennan atvinnuveg á síðari árum, að þar eru mikil efni í veði. En þrátt fyrir hinn afarmikla síldarafla hefir útvegurinn á síðari árun, síðan farið var að brúka reknet og herpinætur, ekki borið sig. Síldarverðið hefir verið svo lágt, að hinn mikli afli hefir orðið fremur til tjóns en arðs. Sé það rétt, er allmargir útgerðarmenn á Norðurlandi segja, að verðfallið sé því að kenna, að síldin sé nú illa verkuð og vond vara, þá er ekki annað líklegra, en að þessi atvinnuvegur eyðileggist gersamlega. En þetta má ekki svo til ganga; það verður að taka í taumana, og þó nota verði meðöl, er að nokkru leyti hefta framleiðsluna, þá má ekki setja það fyrir sig, því um fram alt verður að afstýra voðanum þeim, að síldveiðar leggist niður.

Það er öllum ljóst, sem til þekkja, að sú síld, sem veidd er í herpinót, er ekki öll góð verzlunarvara. En það má ekki reka þessa veiði eins og hingað til. Hin mesta síldveiðaþjóð álfunnar, Hollendingar, ef bera mætti þá saman við oss, fara öðru vísi að, þeir salta sína síld alla á hafi úti, og kæra sig ekki um að afla meira en þeir geta komist yfir að verka vel. Þetta er gagnstætt því, sem hér tíðkast, þar sem nálega öll síldin er verkuð í höfn.

Þá vil eg víkja aftur að frumv. Nefnd á að geta bætt úr þeim göllum, sem á því kunna að vera. Viðvíkjandi 3. gr. vil eg taka fram, að eg tel sjálfsagt, að gefin verði út reglugjörð, sem matsmenn og skipstjórar eiga að fara eftir. Eg tel það líka óþarft að banna útflutning á skemdri síld, sem nota mætti til áburðar eða olíu. Slíkt ákvæði mundi ef til vill skemma, því að matsmenn mundu hika sér við að vera mjög strangir, þar sem það væri alt undir þeim komið, hvort eigendum yrði nokkuð úr sinni vöru eða ekki. Það að flokka síldina og merkja hana eftir flokkum ætti að vera nóg til að bæta hana. Aðalatriðið, að síldarverkunin sé bætt, er lífsnauðsyn