25.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

58. mál, skoðun á síld

Sigurður Hjörleifsson:

Eg er þakklátur þeim háttv. ræðumönnum, sem hafa talað. Eg vil að eins benda á það, að það er meining mín, að það væri heppilegast að nýveidd síld, sem ófær væri til manneldis, væri ekki flutt út; og eins hitt tel eg vafasamt, hvort flytja bæri út síld, sem að eins hefir legið í salti nokkra daga. En eg ætla að fara megi milliveg. Það mætti stimpla þá síld, sem ekki er til manneldis, en mætti þó flytja út. Aðalatriðið er að henni sé ekki blandað saman við síld, sem hafa má til manneldis. En þá er að vísu ekkert á móti því að flytja mætti hana út. Eg er ekki samdóma 3. kgk. þm. um nytsemi kjörfrjálsrar skoðunar. Eg er viss um að margir mundu nota hana. — Afleiðingin af því að varan fengi merki yrði sú, að menn þyrftu ekki að neyðast til að nota umboðssalana, en aftur á móti haft von um að selja vöruna á staðnum. Hér mundi sama gilda og um fiskimat, að menn mundu sækjast eftir því að fá merki á vöruna, og það mundi borga sig. Að öðru leyti tel eg réttast að vísa málinu til nefndar.