13.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

64. mál, bókasafn vesturlands

Sigurður Stefánsson:

Mig furðar stórlega á því kappi, sem háttv. 5. kgk. þm. leggur á að sannfæra. deildina um að frumv. fari fram á skerðing á eignarréttinum. Hér er ekkert slíkt gert og eg hélt að eg hefði sýnt fram á það. Hér er að eins farið fram á að flytja safnið frá einum stað á annan, og það er alls ekkert stjórnarskrárbrot. Það á að vera ódæði, ef þingið breytir samþykt um að safnið verði ekki á ómögulegum stað framvegis, heldur á bezta stað í amtinu. Að eg ámælti Stykkishólmi eða íbúum hans, er ósannindi. Eg sagði að það væri kauptúns hola, og það er satt en ekki skammir, það getur ekki verið meiðandi, því að það er sagt um staðinn en ekki um mennina, þar geta verið góðir menn fyrir því. Mér datt aldrei í hug að ámæla mönnunum. En einmitt svona stóryrði og fullyrðingar, sem hjá háttv. 5. kgk. þm., benda á röksemdaþrot hjá honum. Hann sagði að eg hefði byrjað á rangmæli, en eg hygg að hann hafi bæði byrjað og endað á röngum stað.

Eg leyfi mér að stinga upp á 3 manna nefnd.