16.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

66. mál, Húsavík eða Þorvaldsstaðir

Steingrímur Jónsson:

Eg get verið háttv. þm. Ak. þakklátur fyrir undirtektirnar, því mér skildist hann vera sölunni hlyntur og það er aðalatriðið. Eg játa að undirbúningur málsins er ekki sem beztur. En eg skýrði frá því áðan, hvernig á því stendur að skjölin vantar. Eg vildi ekki hætta við að bera frumvarpið fram, þótt skjölin fyndust ekki; hugsaði mér að skýra sjálfur frá ástæðunum og öllu málinu viðvíkjandi. Auk þess ber að gæta þess að hér er aðeins um heimild til sölu að ræða. Stjórnin hefir vald og skyldu til að láta virða jörðina, til að gæta þess, að prestalaunasjóðurinn fái sitt. En annars hefi eg sett verðið svo hátt, sem eg með nokkru móti þorði.

Jörðin er harðbalajörð, metin 46 hndr. að dýrleika með Þorvaldsstöðum.

Eg álít enga ástæðu til að kjósa nefnd við þessa umræðu, en þó vil eg það auðvitað heldur, en að frumv. verði ekki leyft að halda áfram.

Háttv. þm. Akureyrar sagði að ekki væri búið að skifta hrepnum og því lægi málinu ekki á. Þetta er ekki rétt. Meiningin er að skiftingin fari fram undir eins og við fáum að vita hvort jörðin fæst; eftir því einu er beðið. Fáist jörðin ekki, þá er alls ekki víst að við viljum skifta, en gangi þessi lög fram, þá verður skift strax. Þessvegna er mér umhugað um að málið nái fram að ganga á þessu þingi, að þorpsbúar vilja ekki ráðast í þetta fyrirtæki, nema þeir hafi eitthvað betra að byggja á en þann leiguliðarétt sem þeir hafa nú. Eg beið þangað til nú, af þeirri einni ástæðu, að skjölin fundust ekki. Ef til vill mætti útvega skjölin að nýju en það tekur langan tíma.