16.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (772)

66. mál, Húsavík eða Þorvaldsstaðir

Jens Pálsson:

Eg get tekið undir með háttv. þm. Akureyrar að þessi ósk sé eðlileg og réttmæt og eigi að uppfyllast undir eins og Húsavík verður hreppsfélag út af fyrir sig. En eins er eg á því, að hvorki sé mögulegt né ráðlegt að afgreiða málið svona skilríkjalaust frá þessu þingi. Hér kemur margt til athugunar. Fyrst og fremst það, að skjöl þau sem háttv. flutningsm. vitnaði í verðinu viðvíkjandi og sem verðið er bygt á, eru 2—3 ára gömul, svo að verið getur að þau séu úrelt. Mikið land getur hafa bygst síðan þá, og jörðin því hækkað í verði. Þegar landsjóður á land sem nauðsynlegt er fyrir kaupstað að fá keypt, álít eg að landsjóður eigi að sjálfsögðu að selja það, en auðvitað ber að gæta hagsmuna landsjóðs eigi síður en kaupandans. Lönd sem liggja að kaupstað eru í hærra verði en önnur lönd vegna byggingarinnar í kaupstaðnum, og miklu meiri möguleikar eru til að þau hækki frekar í verði, en lönd sem ekki liggja að kaupstað. Þess vegna er sanngjarnt að selja þau með nokkuð hærra verði, svo að réttur landsjóðs verði ekki skerður, en þó eigi hærra verði en svo, að bæjarfélögunum sé sýnilegur hagnaður að kaupunum. Háttv. flutningsm. gat þess að landsjóður eða prestalaunasjóður ætti að fá sitt, en það er altaf álitamál, hve hátt verðið þarf að vera til þess. Eg hefi fyrir satt að lóðir á Húsavík séu mjög lágt leigðar nú, en eg get hugsað mér að leigan hækki ef salan gengur fram, svo að hún verður ef til vill ekki hagnaður fyrir einstaklingana. Háttv. flutningsm. mintist á, að jörðin væri metin 46 hndr. að dýrleika. En þetta 40—50 ára gamalt jarðamat, og er því ekki hægt að miða við það. Jarðir sem kaupstaðir standa á, hljóta að verða metnar miklu hærra en aðrar jarðir.

Slík mál koma sjálfsagt fyrir næsta þing. Að minsta kosti veit eg að til stendur að Hafnarfjörður falist eftir landi, og ef til vill fleiri kaupstaðir, og findist mér réttast, að þetta mál væri látið bíða eftir hinum, svo að þau gætu öll orðið samferða, því þá væri auðveldara að fá samræmi í mat slíkra landeigna og söluskilmálana í slíkum tilfellum yfirleitt. Eg álít sjálfsagt að bæjarfélög fái keypt lönd, þegar þau þurfa á þeim að halda og landsjóður má missa þau, en eins sjálfsagt er það, að réttar landsjóðs sé gætt vel. Glöggar skýrslur verða að vera fyrir hendi í hverju tilfelli, svo hægt sé að sjá, hve mikið verðmæti jarðarinnar er orðið á þeim tíma sem selt er. En einkum ber að viðhafa alla varkárni í slíkum tilfellum sem því, er hér liggur fyrir, því að jarðir sem standa í kaupstað, eða kaupstaður stendur á, eru vafalaust dýrmætustu blettirnir sem landsjóður á.

Af þessum ástæðum tel eg rétt, að málinu sé tekið vinsamlega, og að það sé yfirvegað og rætt vel og vandlega. Því þó ekki sé hægt að afgreiða það frá þessu þingi, þá væri meðferð þess hér í deildinni góður undirbúning undir næsta þing, og það hefði þá vissari framgang þá. Eg tel því rétt að skipa nefnd í málið og geri það að tillögu minni, að 3 manna nefnd sé kosin í það, að umræðunni lokinni.