24.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

66. mál, Húsavík eða Þorvaldsstaðir

Framsögum. (Sigurður Hjörleifsson); Eg hefi ekki miklu við að bæta í þetta skifti, en skal leyfa mér að taka það strax fram, að eg hefi alls ekki heyrt neitt það fram komið í ræðu síðasta háttv. ræðumanns, er breytt geti skoðun minni á málinu. — Og viðvíkjandi því, sem nefndin setti fram um rétt kaupstaða á landeignum, þá er það að segja, að það var að eins fram sett til athugunar síðar meir, en alls ekki sem regla, er ætti að gilda í svipinn. Og því ekki þörf að ræða það sérstaklega meira nú.

Ekki finst mér sú athugun háttv. síðasta ræðumanns á neinu viti bygð, þar sem hann er að bera saman jarðasöluna þá í gær við þessa. Þar var að ræða um hlunnindalausa jörð fjarri sjó; hér er hlunnindajörð, sem að sjó liggur. Það getur ekki verið ólíkara saman jafnað. Eg sé ekki að það sé annað en einskonar lokahríð þeirra miklu harmkvæla, sem menn komust í út af Kjarna-sölunni. — Annars sé eg ekki hvað Húsavík liggur á þessu máli. Það er sjóþorp að eins og ekki einu sinni sérstakur hreppur. Mér finst ekki að á þessu ætti að liggja fyr en þorpið er að minsta kosti skilið frá hreppnum, — Annars er hin skjallega hlið málsins feykilega ónákvæm; og finst mér öldungis óviðeigandi, að fara að hraða sölunni nú fyr en að minsta kosti eitthvað frekara liggur fyrir úr þeirri átt. Virðing t. d. liggur engin fyrir á jörðum þeim, sem um er að ræða; og væri það óhæfa, ef þingið færi að skera úr um verð jarðar, sem það ekki þekkir og engin virðing liggur fyrir á. Það sem um var að ræða, sem fremsta skilyrði fyrir samþykking slíkrar sölu af alþingis hálfu, finst mér hefði hlotið að vera virðing umræddra jarða af dómkvöddum mönnum. Slíkt er eitthvað annað en lýsing ein og það af vilhöllum mönnum. — Í heild sinni finst mér málið liggja þannig fyrir, að eg hlýt að leggja alvarlega á móti því, að mál þetta gangi fram að svo komnu.