24.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

66. mál, Húsavík eða Þorvaldsstaðir

Steingrímur Jónsson:

Það er rétt, sem háttv. síðasti ræðumaður tók fram í ræðu sinni, að hann fór ekki fram á að leggja haft á þær kaupstaðarlóðir og landeignir, sem menn þegar eiga. En ekki get eg skilið, hvers vegna hann taldi óþarft að flýta málinu. Mér finst þvert á móti hin mesta ástæða til að flýta því. Hann sagði, að málið lægi fyrir illa undirbúið. Það er þvert á móti. Eins og eg hefi áður tekið fram, liggur málið mjög skýrt fyrir skjallega, þótt bein virðing á jörðunum hafi ekki átt sér stað. En þess utan skal eg taka fram, að málinu liggur af þeirri ástæðu einkum á, að Húsavíkurþorp, sem nú liggur fyrir að skilji sig frá þeim hrepp, sem það liggur í, og myndi sérstakan; hrepp, getur ekki fengið því til vegar komið fyr en það hefir fengið jarðir þessar keyptar; og snýst þar sú ástæða síðasta háttv. ræðumanns gegn sölunni einmitt móti honum sjálfum. Því er það einkar áríðandi fyrir þorpið að fá þessar jarðir keyptar og það sem fyrst. — Eins og eg sagði, þá vona eg, að lýsing sú sem fyrir liggur á jörðunum gefi nokkra hugmynd um réttlátt söluverð þeirra; enda getur virðingin farið fram síðar, þó salan leyfist nú, og má þá taka hana til greina, engu síður en þótt nú lægi virðingin strax fyrir. En viðvíkjandi verði því sem til hefir verið nefnt, þá kemur það þannig fram, að tekið er meðaltal af 5 ára tekjum og gert ráð fyrir 6% frádrætti fyrir innheimtu kostnaði. Ekki þarf síðasti háttv. ræðum. að bregða mér um ergjur út af sölunni á Kjarna; þótt eg sé hins vís, að verðið þar var alt um of lágt. Það er langt frá því, að eg vilji á neinn hátt skóinn ofan af Akureyri, og hef aldrei viljað. — En hvað máli þessu viðvíkur, sem um er rætt, þá sé eg ekki annað en að fullkomlega nægilegar upplýsingar liggi hér fyrir hendi, og fulltryggilega frá öllu gengið til að salan gæti átt sér stað.