15.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

67. mál, úrskurðarvald sáttanefnda

Lárus H. Bjarnason:

Það er margt athugavert við frumvarp þetta, þó að það sé ekki stórt. Fyrst er nú gersamlega ólögfróðum mönnum fengið dómsvald í hendur og það úrslitadómsvald í málum, sem þó ekki eru neitt smáræði. Og það er dálítið undarlegt, að ólögfróðum mönnum skuli fengið úrslitadómsvald í málum er nema 50 kr., þegar það er borið saman við þau ákvæði er gilda um málsskot frá undirrétti til yfirdóms. Héraðsdómi má skjóta til yfirdóms ef um 4 kr. virði er að ræða. Þá á sáttanefnd að ákveða málskostnað án nokkurrar takmörkunar, en hann getur orðið allálitleg upphæð. Sem dæmi þess má nefna, að málskostnaður við eitt lítilsháttar mál, meiðyrðamál, hér í Reykjavík eigi alls fyrir löngu nam rúmum 600 kr. En ekki veit eg hvort málfærslumaðurinn fekk alla upphæðina greidda.

Sáttanefnd á, nema sérstaklega standi á, að uppkveða dóm sinn þegar í stað, og það jafnvel þó að kærði hafi ekki mætt. Eftir núgildandi lögum má ekki uppkveða dóm fyr en eftir 14 daga, ef stefndi mætir ekki. Eftir frumv. má dómsuppsögn ekki dragast lengur en 1 viku.

Eins og áður er tekið fram, verður úrskurði sáttanefndar ekki haldið til dóms, nema alveg sérstaklega standi á, og þá samt ekki nema keypt sé leyfisbréf til þess, er kostar 10 kr. Mér þótti frumv. athugavert undir eins og eg sá það og fór því að grenslast eftir, hvernig það væri orðið til og kom þá í ljós, að það er orðið til í nefnd í nd., en í henni sitja 4 skuldheimtumenn hér í bænum, 3 kaupmenn og einn af stærstu atvinnurekendum bæjarins, enda varð svo að vera, því að frumv. er eingöngu fyrir slíka menn, líkt og lögin um varnarþing í skuldamálum frá síðasta þingi. Að svo mæltu vil eg ráða deildinni til að skipa 3 manna nefnd í málið.