01.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

67. mál, úrskurðarvald sáttanefnda

Framsögum. (Jósef Björnsson):

Eins og háttv. deild sér á nefndarálitinu á þgskj. 373, hefir sú nefnd, sem kosin var til að íhuga þetta mál, orðið á einu bandi um það, að ráða til þess að frumv. verði felt. Ástæður nefndarinnar eru teknar fram í nefndarálitinu. Eg finn ekki ástæðu til að bæta neinu verulegu við að svo stöddu; eg skal að eins geta þess, að nefndin leggur mikla áherzlu á það atriði, að áhrif sáttanefnda til sátta sé ekki rírð með því að láta þær hafa það vald, sem hér er farið fram á. Það vill oft verða svo í málaferlum að báðum málspörtum finst þeir hafa rétt. Annar mundi þá alt af þykjast að einhverju leyti beittur órétti með úrskurði sáttanefndarinnar, og oft báðir, og á þennan hátt yrðu sáttanefndirnar óvinsælli og þar með dregið úr áhrifum þeirra. Þetta kynni að verða til þess, að mjög erfitt yrði að fá góða og nýta menn til þess að sitja í sáttanefndum. Nefndinni dylst og ekki, að í ákvæðum frumv. felst engin trygging gegn misrétti í úrskurðum sáttanefndanna, og einkum mætti búast við að misrétti kynni að eiga sér stað, að því er snertir gagnkröfur og málskostnað. Eg skal svo ekki tefja háttv. deild meira að sinni, en vona að hún verði samdóma nefndinni um að fella frumvarpið.