01.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

67. mál, úrskurðarvald sáttanefnda

Ari Jónsson:

Það er alment viðurkent, að þar sem viðskiftalíf er fjörugt, er þörf á greiðum málflutningi í smá skuldamálum. Það er þörf á, að slíkum málum verði komið fram á auðveldari og greiðari hátt, en annars gerist um einkamál. Enda er þess kostur víðast annarstaðar en hér á landi. Nú eru viðskifti manna hér á landi, einkum í kaupstöðum, orðin svo mikil og margbrotin, að mönnum finst einnig vera orðin þörf þess hér, að fá lögleiddan greiðari málflutning í lítilfjörlegum skuldamálum, en verið hefir hingað til. Þetta er ástæðan til þess, að frumvarp þetta er fram komið, og hefir eflaust við góð rök að styðjast. En hitt getur verið vafasamt, hverjum á að fá þessi mál til meðferðar.

Neðri deild hefir nú álitið heppilegt, að fela þessi mál sáttanefndunum. En það er nálega einsdæmi, að sú leið sé tekin. Í öðrum löndum víðast eru slík mál ýmist falin sérstökum dómstóli t. d. Den lille Gældskommission í Kaupmannahöfn eða sami dómari dæmi um þessi mál sem önnur, en um þau eru settar sérstakar reglur, sem gera málaflutninginn fljótari og greiðari. Fyrri aðferðin yrði sjálfsagt of dýr hér, en mér sýnist ekkert vera á móti síðari aðferðinni, þeirri að fela málið sýslumönnum og bæjarfógetum, en þannig að slík smávægileg skuldamál væru leidd til lykta fljótt og meira »summarisk« en önnur mál. — Eg hefði getað verið með frumvarpinu, ef það hefði farið þessa leið. En til þess þyrfti gerbreytingu við, eða réttara sagt, það þyrfti að semja nýtt frumvarp.

Eg get ekki verið með þessu frumv. eins og það liggur nú fyrir. Mér finst ófært, að gefa sáttanefnd dómsvald í þessum málum, ekki sízt þegar úrskurður hennar á að vera fullnaðarúrskurður. Hlutverk sáttanefnda er alt annað en að fella dóm í málum manna — Það er og ýmislegt annað í frumv. sem mér þykir athugavert, en eg sé ekki ástæðu til að fara frekar út í það að svo vöxnu máli.