01.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

67. mál, úrskurðarvald sáttanefnda

Umboðsmaður ráðherra (KI. Jónsson):

Þetta mál er ekki nýr gestur á alþingi. Það kom fyrir þing rétt eftir 1890; gekk þá greiðlega gegnum efri deild, en féll í neðri deild. Nú kemur málið aðra leið hingað til háttv. deildar. Frumv. hefir gengið gegnum neðri deild og var þar borið fram af nefnd þeirri, sem skipuð var í verzlunar- og atvinnumál landsins. Eg efast ekki um, að sú nefnd hefir athugað málið vel og verið sér þess fullkomlega meðvitandi, hvað hún lagði til. Þess vegna þótti mér undarlegt þegar eg sá að nefndin, sem hefir málið til meðferðar hér, leggur til, að fella frumv. umsvifalaust, án þess að benda á, hvað eigi að koma í staðinn. Það hefði þó legið háttv. nefnd næst, að benda á annað ráð, úr því hún vill fella þetta frumvarp, en álítur þó hins vegar fulla nauðsyn á að fá greiðari málsmeðferð í smávægilegum skuldamálum, en hingað til hefir verið kostur á.

Eg er á sama máli og nefndin um það, að það sé nauðsynlegt að gefa mönnum kost þess, að útkljá slík smámál, án þess að leggja út í langsóttan og dýran málarekstur. Og eg er ekkert hræddur við, að fela sáttanefndunum þessi mál. Að vísu kann það að vera rétt athugað, að það sé varhugavert, að gefa sáttanefndum úrskurðarvald um gagnkröfur. Slíkar kröfur eru oft flóknar og vandasamt að skera úr um þær, og hins vegar eru sáttanefndirnar ekki altaf sem bezt skipaðar. Því þó að annar sáttanefndarmaður vanalega sé prestur, og hann ætti að vera nokkurn veginn fær um að útkljá smávægilegar kröfur manna rétt, jafnvel þó um gagnkröfu sé að ræða, þá kemur það þó fyrir, að minsta kosti þekki eg það, að prestar eru eigi í sáttanefnd, og þekki enda sáttanefndir, sem ekki eru sem bezt skipaðar. En þá þætti mér réttast að ákvæði 10. gr. um úrskurðarvald um gagnkröfur falli burt, en frumv. haldi sér að öðru leyti, og mér þætti jafnvel réttast, að takmarka svið laganna til að byrja með, þannig, að þau giltu aðeins fyrir kaupstaðina en næðu ekki til sveita. Í kaupstöðunum er þörfin mest og þar eru líka sáttanefndir að jafnaði bezt skipaðar.

Eg er nokkuð kunnugur því, hver mál koma tíðast fyrir sáttanefndir, því að eg hefi verið í sáttanefnd hér í Reykjavík í 3 ár. Og eg þori að fullyrða, að ? allra mála, sem fyrir sáttanefnd koma, eru blátt áfram einföld skuldamál, vanalega um viðurkendar skuldir og smáar upphæðir. Það sem á milli ber, er oftast ýmisleg aukaatriði viðvíkjandi því hvernig og hvenær borga skuli, en snerta ekki sjálfa kröfuna, og á þeim strandar það oft, að sættir eigi komast á, en það er þó hart í svona tilfellum, að neyða menn út í mál, þegar enginn ágreiningur er um kröfuna sjálfa, heldur ef til vill einungis um borgunardaginn.

Það ætti því ekki að vera neitt varhugavert, að fá sáttanefndum vald til að útkljá slík mál, þar sem aðeins er um það að ræða, hvernig borga eigi skuldina. Það ætti því síður að vera varhugavert, ef lögin næðu aðeins til kaupstaðanna, þar sem oftast er kostur á góðum mönnum, og jafnvel lögfræðingum í sáttanefnd.

Háttv. þm. Strand. sagði að það væri eins dæmi, að sáttanefndir fengju heimild til þess að útkljá endilega slík mál. Þetta er ekki rétt; eg veit ekki betur en að sama fyrirkomulag sé í Noregi, og hafi gefist vel þar. Og þetta frumv. mun einmitt vera sniðið eftir norsku lögunum um sama efni. — Sama háttv. þm. þótti og mjög ægilegt að fá sáttanefnd í hendur fullnaðar úrskurðarvald. En eg vil benda honum á, að sátt, sem kemst á fyrir sáttanefnd, verður ekki áfrýjað; hún er jafn gild og hæztiréttardómur og getur hún þó vel verið ósanngjörn og illa fengin. Og þegar svo er um sættir í hverju stórmáli sem er, finst mér engu ægilegra þó að úrskurði sáttanefndar í smáskuldamálum verði ekki áfrýjað.

Þetta er mikilvægt mál og full þörf umbóta í þessa átt. Því finst mér varhugavert að fella frumvarpið og koma þó ekki með neinar tillögur um aðra heppilegri leið til umbóta í þessum efnum, t. d. að fela reglulegum dómurum þessi mál til greiðrar málsmeðferðar. — En að láta málið detta niður svona umsvifalaust, sýnist mér naumast rétt gagnvart hinni deildinni.