01.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

67. mál, úrskurðarvald sáttanefnda

Kristinn Daníelsson:

Eg get vel metið góðan tilgang háttv. nefndar, en þó get eg ekki annað en verið samdóma háttv. þm. V. Sk. um það, að hún hefir tekið sér verk sitt æði létt. Mér finnst það nokkuð fljótfærnislegt að leggja til, að frumvarpið verði felt hiklaust. Mér finst nefndin hefði átt að búast við að deildin kynni að vilja aðhyllast frumvarpið, og hefði átt að koma með breytingar, sem horfðu til lagfæringar og gerðu frumvarpið aðgengilegt.

Eg er samdóma nefndinni, að ekki megi gera neitt það, er dragi úr framkvæmdum sáttanefnda, að því er snertir aðalhlutverk þeirra, að sætta menn. En sáttanefndir hafa einnig annað hlutverk, því að þeir eiga að stuðla að því, að menn nái rétti sínum. Og þessi lög eiga að gera sáttanefndum mögulegt að hjálpa mönnum til réttar síns í þeim málum, sem það er erfiðast, í smáskuldamálum. Það er sannast að segja, að í slíkum málum er nú ekki nema um einn greiðan veg að ræða, nfl. að láta kröfuna falla niður, enda kjósa menn það vanalega, heldur en að fara í margbrotinn og dýran málarekstur.

Eg bjóst ekki við að nefndin vildi fella frumvarpið alveg, en hinu gat eg vel búist við, að hún vildi færa niður 50 kr. hámarkið, sem frumv gerir ráð fyrir, enda hefðu lögin getað orðið til mikilla bóta fyrir því. Það er fjöldi skulda langt fyrir neðan 50 kr., sem nauðsynlegt er að greiða fyrir, bóka- og blaðaskuldir o. fl.

Háttv. þm. Strand. benti á að gera mætti flutning slíkra mála greiðari en nú, og hefðu vanalegir dómarar þau með höndum alt að einu. Sú aðferð yrði naumast til mikilla bóta, því að þar sem langt er að leita dómara, eins og víða á sér stað hér á landi, getur eigi að síður orðið svo dýrt og vafningasamt að leita réttar síns, að það borgi sig ekki, þegar um smávægileg peningamál er að ræða.

Það er ekki svo að skilja, að eg hafi ekkert út á frumvarpið að setja. T. d. finst mér athugavert að fela sáttanefndum svo umfangsmikið starf, án nokkurs endurgjalds. Hér er um mjög mikinn verkauka að ræða, og væri því full ástæða að sjá sáttanefndum fyrir einhverri þóknun fyrir það, hver leið sem til þess kynni að verða valin. — Þetta og fleira þarf athugunar við, en eg get ekki verið með því, að fella frumvarpið. Að minsta kosti mun eg greiða atkvæði með því til 3. umræðu, svo að háttvirtir deildarmenn fái tíma til að íhuga málið betur.