01.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

67. mál, úrskurðarvald sáttanefnda

Framsögumaður (Jósef Björnsson); Það hafa heyrst allþungar ákúrur til nefndarinnar í þessu máli, en ekki get eg sagt að mér finnist þær allar á rökum bygðar; vil eg því minnast nokkuð á sum atriði í aðfinslunum.

Háttv. þm. V. Sk. tók það fram, að dómarar mundu fegnir vilja losna við slík mál. Þetta kann vel að vera rétt, en þá þykir mér ekki ósennilegt, að sáttanefndir vildu það líka, og ekki síður en dómarar.

Háttv. þm. sagði og, að nefndinni mundi hafa þótt slík málsmeðferð, sem frumv. gerði ráð fyrir, of auðveld og óbrotin, og ekki viljað samþykkja það þess vegna. Þessum áburði verð eg algerlega að neita. Enda væri það mjög óheiðarlegar hvatir, ef nefndin væri á móti málinu fyrir þá sök, að það væri of einfalt, eða með öðrum orðum, of gott mál.

Sami háttv. þm. sagði ennfremur, að nefndin væri sjálfri sér ósamkvæm, því að hún vildi ekki ríra álit sáttanefnda, en vildi þó fella frumvarpið og ríra þar með áhrif sáttanefnda. Þetta er ekki rétt. Nefndin leggur áherzlu á, að ekkert sé gert, sem ríri áhrif sáttanefnda til sátta. Og eg tók það fram í framsögu minni, að nefndin væri á móti frumv., af því að það mundi fremur ríra en auka áhrif sáttanefnda í þá átt, að sætta menn. Það er sitthvað, að fá sáttanefndum dómsvaldi hendur, eins og frumv. gerir, eða að auka vald þeirra til sátta.

Þá vil eg víkja nokkuð að öðrum háttv. ræðumönnum. Hæstv. umboðsmaður ráðherra kvað mikla þörf á að gera meðferð slíkra mála greiðari en nú er, og háttv. þm. Strand. tók að nokkru leyti í sama streng. En nefndin í heild sinni viðurkennir ekki þessa þörf. Má vera að hún sé nokkur í kaupstöðum, en hún er alls ekki í sveitum. Eg get sagt eins og hæstv. umboðsmaður ráðherra, að eg hefi verið í sáttanefnd í mörg ár, og þekki því nokkuð til þess, hverskonar ágreiningur kemur tíðast fyrir sáttanefndir til sveita. Þær hafa vanalega ekki mikið að gera, því að málaferli eru fátíð til sveita; en mín reynzla er hin sama og hæstv. umboðsmanns ráðherra, að þegar um skuldamál er að ræða, er ágreiningurinn vanalega í því falinn, að skuldunautur þykist ekki geta borgað svo fljótt, sem krafist er. Og það er þetta, sem erfiðast er að ná sáttum og samkomulagi um, þótt það takist oftast að miðla svo málum, að báðir aðilar geti vel við unað. Það er oft, að getuleysi er einu um að kenna, og þegar svo stendur á, gæti það oft og tíðum komið óþarflega hart niður á skuldunaut, ef hægt væri að ganga að honum svo að segja þegar í stað, eins og ætla má að gert yrði, ef frumvarpið yrði að lögum.

Þá tók hæstv. umboðsmaður ráðherra fram, að sætt, sem gerð er fyrir sáttanefnd, verði ekki áfrýjað, og sé því engin munur á henni og fullnaðarúrskurði sáttanefnda eftir frumv. Þetta er ekki rétt. Sáttin er altaf komin á fyrir samþykki beggja hlutaðeigenda, og því er hún alt annars eðlis en úrskurður.

Háttv. þm. V. Ísf. sagði að nefndin hefði átt að benda á einhverjar aðferðir til að gera málið aðgengilegra, hefði átt að koma með einhverjar lagfæringar við frumvarpið. Þessa verður ekki réttilega krafist af nefndinni, af því að hún er á móti frumvarpinu í heild sinni og grundvellinum undir því. Þessvegna sá hún ekki ástæðu til að koma með neinar lagfæringar, en ræður hreint og beint til að fella frumvarpið.