01.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

67. mál, úrskurðarvald sáttanefnda

Ari Jónsson:

Eg skal taka það fram, að þar sem eg viðurkendi, að þörf væri á fljótari úrskurðum í smáum skuldamálum, en nú er hægt að fá, þá talaði eg fyrir mína eigin hönd, en ekki nefndarinnar. Eg álít að þörfin sé mest í Reykjavík, og ef til vill töluverð í öðrum kaupstöðum, en mjög lítil til sveita. Þar er viðskiftalífið ekki svo fjörugt eða margbrotið, en þörfin er auðvitað mest þar, sem mest er um viðskifti.

Þar sem þörf er á, að flýta fyrir rekstri slíkra mála, álít eg tiltækilegast, að fela bæjarfógetum og sýslumönnum að hafa á þeim greiðari og fljótari meðferð en þá, er nú tíðkast, að stofna sérstaka dómstóla til þess eins, að dæma í slíkum málum, yrði altof dýrt.

Nefndin hefir ekki komið með breytingar, því ef breyta hefði átt frumvarpinu í þá átt, sem eg tel æskilegasta, þá hefði í raun og veru alls ekki verið um breytingar, heldur um samning nýs frv. að ræða. Og til þess að búa til ný lög um þetta efni skorti nefndina tíma. Reyndar hefði eg ekkert á móti því, að þingnefnd yrði sett, til þess að semja frumvarp, er færi í þá átt, sem eg benti á áðan, en ef til vill væri heppilegast, að nýja stjórnin tæki mál þetta til athugunar og byggi það undir næsta þing. Út af ummælum háttv. umboðsmanns ráðherra, skal eg geta þess, að það er tvent ólíkt, að kveða upp dóm og koma á sátt. Samþykki hlutaðeigenda er nauðsynlegt við sættir, en dómurinn er bindandi, án tillits til þess, hvort hlutaðeigendum geðjast vel eða illa að honum. Svo að ef sáttanefndirnar geta misbeitt valdi sínu nú, þar sem samþykki hlutaðeigenda er nauðsynlegt, til þess að gild sátt komist á, þá getur það verið en hættulegra að fá þeim dómsvald í hendur. — Því valdi geta þær misbeitt miklu meira en þessu valdi, sem þær hafa nú.