01.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

67. mál, úrskurðarvald sáttanefnda

Sigurður Stefánsson:

Eg skal játa það, að eg er einn af þeim, sem ekki tel frumvarp þetta mikla réttarbót. Eg hefi verið sáttanefndarmaður í hartnær 30 ár, og mín reynzla er sú, að venjulega er sæzt á þessar smáskuldir. Eg held því að frumv. þetta komi að litlu gagni, að minsta kosti til sveita, sérstaklega þegar þess er gætt, að sáttanefndirnar aðeins hafa fullnaðar úrskurðarvald, þá er um viðurkendar skuldir er að ræða. Eg minnist ekki að hafa haft neitt mál fyrir, þar sem hlutaðeigandi viðurkendi skuldina og ekki hefir verið sæzt á. Það er einmitt um réttmæti skuldanna, sem deilan vanalega snýst. En vera má, að það gæti komið að meira haldi í kaupstöðum, að fá sáttanefndunum slíkt vald í hendur, og þessvegna vil eg lofa málinu til 3. umræðu. En verði störf sáttanefndanna aukin, er brýn nauðsyn á að hækka borgun þá, er sáttanefndarmenn fá fyrir starfa sinn. Nú er það hreinasta smánarborgun, sem sáttanefndarmenn fá fyrir verk sín, og engan ferðakostnað, nema þeir fari út úr umdæmi sinu. Eg álít það alveg ósamboðið löggjafarvaldinu, að hrúga störfum borgunarlaust á einstaka menn.

Eg vildi óska að nefndin tæki þetta atriði til íhugunar, og kæmi með tillögu þar að lútandi við 3. umræðu, ef málið kemst svo langt. Annars lái eg nefndinni ekkert, þótt hún vilji fella frumv., og eg er viss um að prestar og sjálfsagt fleiri vilja vera lausir við að sitja í sáttanefndum, ef frumvarpið nær fram að ganga. Starf sáttanefndanna verður þá mjög vandasamt, sérstaklega að því er til þess kemur, að skera úr því, hve nær taka skuli gagnkröfur til greina.