19.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (8)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Framsögumaður (Sigurður Stefánsson):

Eins og eg mintist á áðan eru litlar breytingartill. aftur að 13. gr. Í 8. gr. hafa vextir og afborganir af láni landsjóðs úr ríkissjóði Dana verið rangt reiknaðir í neðri deild, og hefir nefndin leyft sér að lagfæra það.

Næsta breytingartill. er við 12. gr. 9. a. Í stjórnarfrumvarpinu var gert ráð fyrir styrk til fjögurra sjúkrahúsa, en Nd. hefir slegið öllum fjárveitingunum saman í eitt. Það þótti nefndinni varhugavert, að því er snertir sjúkrahúsið á Patreksfirði, og hún leggur til að veitt sé sérstaklega fé til þess. Til Patreksfjarðar koma fleiri útlend fiskiskip en á nokkura aðra höfn á landinu, og er því afar áríðandi að þar sé gott sjúkrahús, er geti tekið á móti útlendum sjúklingum og varnað þannig útlendum sjúkdómum útbreiðslu hér. En annars er aðsóknin að þessu sjúkrahúsi mikið minni en að hinum, og yrði því styrkurinn miklu minni til þess en hinna, ef hann væri miðaður við aðsóknina eða svo kallaða legudaga. Nefndin leggur því til að sjúkrahús þetta haldi sama styrk og að undanförnu.

Þá er viðaukatill. við 12. gr. 9 staflið »f«, að 600 kr. veitist fyrra árið til kaupa á sótthreinsunarofni í sóttvarnarhúsið á Akureyri. Þessi fjárveiting var samþykt í nefnd í Nd., en féll úr og kom aldrei til umræðu. Nefndinni þótti því rétt að taka hana upp hér, þar sem þetta er þörf fjárveiting, er sparar rekstur hússins.

Þá vill nefndin fella burtu staflið »j« í 12. gr. 9. Það er utanfararstyrkur til Andrésar Féldsted læknis. Nefndinni hafði borist til eyrna, að þörf væri á manni er hefði numið augnlækningar, til að vera til taks að taka við af núverandi augnlækni Birni Ólafssyni, er gæti fallið frá þá og þegar. Þetta þótti nefndinni ekki næg ástæða, og þó henni sé kunnugt um, að hann hefir varið talsverðu fé úr eigin vasa til utanferðar til að nema augnlækningar, þá þykir henni þó ekki ástæða til að veita honum þennan styrk, enda mun hann nú vera orðinn svo snjall í þessari grein, að full vel megi við una; að minsta kosti hafa margir augnsjúkir menn sótt til hans á Dýrafirði og fengið góðan bata. Nefndin leggur því til, að þessi liður sé feldur burtu.

Þá er breyt.till. við 13. gr. A. I. b. 2. Hún fer fram á, að hækka fjárveitinguna til launa póstafgreiðslumanna utan Reykjavíkur um 700 kr. árlega; eg tek það skýrt fram, að hér er ekki átt við póstafgreiðslumenn í Reykjavík. Póstafgreiðslumannsstarfið er mjög ábyrgðarmikið starf; meðal annars ganga miklir peningar gegnum hendur þeirra, og hygg eg því, að deildin sé nefndinni samdóma um það, að áríðandi sé að vanir, duglegir og samvizkusamir menn gegni þessum störfum. Svo er einnig nú, en laun þessara manna eru svo lág, að þeir hafa, margir þeirra, ýmist þegar sagt upp eða haft á orði að gera það, ef þeir fengju ekki bætur á launakjörum sínum. Vilji landsjóður halda þessum mönnum, verður hann því að leggja nokkurt fé í sölurnar og hækka laun þeirra. Þess vegna hefir nefndin komið með þessa breyt.till. Við ætlumst til, að viðbótin gangi aðallega til póstafgreiðslumannanna á Akureyri og Ísafirði, og svo til eins manns á Austfjörðum. Á þessum stöðum hafa störfin aukist mjög mikið upp á síðkastið, og eru laun póstafgreiðslumanna þar því tiltölulega lægst í samanburði við störfin.

Nefndin kemur ekki með neina breyt.till. við 12. gr. 2., styrkveitinguna til Öræfinga til að vitja læknis, en eg skal geta þess, að henni þætti viðkunnanlegra, að landstjórnin fái skýrslu um, hvernig styrkur þessi verði notaður.

Þá er 13. gr. B.II, flutningabrautirnar; þar á vill nefndin eða réttara sagt meiri hluti hennar gera miklar breytingar. Hún vill fella burtu allar brautirnar nema 3, og fjárveitingu til tveggja af þessum þrem vill hún lækka. Því neitar enginn, að flutningabrautir séu afarmikil samgöngubót, en þó álítum við að það mundi engu verulegu tjóni valda, þó dregið væri um eitt fjárhagstímabil að veita fé til nokkurra þeirra.

Meirihl. nefndarinnar vill fella burtu styrkinn til Borgarfjarðarbrautarinnar. Eftir sögn verkfræðings landsins mundi öll upphæðin til hennar ganga til einnar brúar á Norðurá, sem áætlað er að kosti 50 þús. kr. Þó þessi brú yrði að vísu að talsverðu gagni, þá er brúarstæðið þó ekki á alfaravegi. Fyrir ofan það búa að eins 900—1000 manns og brúin kæmi ekki öðrum að gagni en þessum örfáu mönnum. Þess vegna viljum við fresta bygging hennar. — Þá viljum við lækka fjárveitinguna til Húnvetningabrautar úr 11,000 kr. niður í 4500 kr. Svo var til ætlast, að þessar 6500 kr. sem lækkunin nemur, yrðu brúkaðar til brúargerðar á Laxá, en þeirri brúargerð álítum við að megi fresta. Áin er lítil og venjulega mjög lítill farartálmi, svo að jafnvel er enn minni ástæða til að veita fé til þessarar brúar en Norðurárbrúarinnar. Þessar 4500 kr. ætlast nefndin til að séu notaðar til að gera við veginn frá Blönduósi að ánni. — Þá leggjum við til, að fjárveitingin til Eyjafjarðarbrautarinnar falli burtu. Hún er nú komin um mikinn hluta héraðsins; þeim sem búa fyrir framan Grund getur varla verið neinn stórbagi að því, þó hún bíði eitt fjárhagstímabil. — Fjárveitinguna til Reykjadalsbrautarannar viljum við lækka úr 15,000 kr. í 10,000 kr., en ekki fella alveg burtu, því þörfin á akbraut er mun meiri í þessari sveit en víða annarstaðar. Héraðið hefir lengi verið afskift að því er flutningabrautir snertir, en á síðasta fjárhagstímabili var fé veitt til brautargerðar þar, og álítur nefndin því ekki rétt að fella hana burtu nú. Auk þess hefir nefndin fengið upplýsingar um, að brautin muni verða mikið notuð sem akvegur undir eins og hún er búin, og mælir það auðvitað með fjárveitingunni, því þá er miklu meira gagn að henni en ef hún yrði einungis notuð sem reiðvegur. Aðalmarkmið akbrautanna er, að gera mönnum mögulegt að nota vagna til flutninga, svo að þeir geti sparað hestana. — Fagradalsbrautina viljum við fella burtu. Á fjáraukalögunum fyrir 1908—09 var mikil upphæð veitt til að fullgera hana, og álítum við því ekki þörf á að veita neitt á næsta fjárhagstímabili. Svo var til ætlast, að þessar 3000 kr. yrðu brúkaðar til viðhalds og umbóta á veginum, en við ætlumst til, að stjórnin geti varið til þess af þeim 7000 kr. sem ætlaðar eru til viðhalds flutningabrauta. — Holtaveginum hefir nefndin ekki hreyft við. Við álítum að nauðsyn sé á honum, og auk þess mælir það með fjárveitingu til hans, að hann má afhenda innan skamms. — Grímsnesbrautina vill nefndin fella burtu. Á fjáraukalögunum var töluverð upphæð veitt til að bæta torfærur á henni, og þó hún liggi í æði fjölmennu héraði, álítur nefndin ekki svo mikla þörf á henni, að ekki megi dragast nokkuð að veita meira fé til hennar.

12. breyt.till. nefndarinnar er sú, að breyta »tungu« í »hraun«, Því vegurinn liggur um hraun, og nefndin leggur til, að styrkveitingin sé hækkuð um 1000 kr. Hér er um ákaflega vondan veg að ræða, og héraðsbúum er það mikið áhugamál, að gert sé við hann. 13. br.till. er um að fella niður fjárveitinguna til að halda áfram þjóðvegi frá Laxá að Bjarnanesi. Nefndin leit svo á, að brúin á Laxá væri nauðsynleg til þess að þær vegabætur, sem þegar hafa verið gjörðar hérna megin árinnar, kæmu að notum, en þegar yfir Laxá kemur er vegurinn allgreiðfær reiðvegur mestan tíma ársins. — 14. br.till. er um að fella burt fjárveiting til brúar á Hólkná. Þetta er ekki mikið vatnsfall, en er þó oft illt yfirferðar, og þótti nefndinni ekki ástæða að veita þetta fé, þegar reynt er að spara sem mest.

Nefndin hefir engar breytingar gert við 13. gr. C. og vill láta Nd. gera sínar ályktanir um það mál.

Svo kemur að því stóra, stóra D. í 13. gr. Nefndin hefir gert miklar breytingar við þessa grein. Nefndin viðurkennir, að vísu, að það sé til mikilla hagsmuna og skemtunar héruðunum að hafa síma, en hún hefir þó talið réttara að fresta slíkum símalagningum í þetta sinn, og því strikað allar fjárveitingar í þessa átt út, nema veitinguna til Siglufjarðarsímans. Nefndinni hefir virzt þetta nauðsynlegur sparnaður. Um Stykkishólms og Búðardalssímana er það að segja, að það verður ekki búist við, að landsjóður fái miklar tekjur af þeim, og er því réttara að fresta þeim að sinni. Þetta veldur auðvitað vonbrigðum hjá hlutaðeigandi héruðum, en hins vegar losast þau líka við stór gjöld, og býst eg við að sýslunefndirnar verði á hinn bóginn fegnar að losast við þessi símatillög, sem bæði eru þungar og miður réttlátar álögur á héruðin. Nd. feldi burt fjárveitinguna til koparsíma milli Borðeyrar og Ísafjarðar. Þetta gat að vísu talist vonbrigði fyrir menn vestra vegna loforða fyrverandi stjórnar og þings, en nefndinni þótti þó ekki ástæða til þess að taka þessa fjárveiting upp aftur hér í deildinni. Nú sem stendur er að vísu að eins einn þráður til Ísafjarðar; það er að vísu stálvír, en má þó vel við una. Síðan eg kom hingað til þings, hefi eg oft heyrt kvartanir um að illa heyrðist í símanum austur um land, en aldrei minst á Ísafjarðarsímann í því efni. Nefndin áleit þetta því ekki svo mikla nauðsyn að ekki mætti fresta. Eg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta atriði, en læt mér nægja það sem sagt er um alla þessa síma í nefndarálitinu.

Viðvíkjandi 18. br.till. þá þótti nefndinni viðkunnanlegra að bæta Ísafirði inn á eftir Seyðisfirði. Nefndin á br.till. á þgskj. 497 við 13. gr. D. V. Það er um að færa styrkinn til símastjórans niður í l500 kr. úr 2500 kr. Þessi fjárveiting til utanfara símastjórans er aðallega til þess, að símastjórinn geti farið utan að kaupa verkefni í nýjar línur og kynna sér nýjungar í símamálum. Nefndinni þótti ekki ástæða til að láta upphæðina standa svo háa, þar sem svo lítið á að gera af nýjum línum í þetta sinn, og lítur líka svo á, að símastjórinn geti kynt sér nýjungarnar hér heima í ritum er að þessu efni lúta.

Í 19. breyttill. við E. I. hefir nefndin fært upphæðina niður og sundurliðað hana. Sá maður, sem helzt hefir eftirlit með vitum landsins, hefir 3000 kr. laun sem verkfræðingur landsins. Nefndin álítur að þessum manni sé því full sómasamlega borgað, þó að hann fái ekki nema helming þeirrar upphæðar, sem Nd. hafði ætlað honum, sem sé 500 kr. í stað 1000 kr. Með því móti verða laun hans 3500 kr. auk ferðakostnaðar við eftirlitið. — Að lokum er lítil br.till. við E. VII. Hún er um ljósker á Langanesi. Nefndinni þótti réttara að segja »Langanesi« fyrir »Langanesvita«.

Þá eru ekki fleiri brt. frá nefndinni og skal eg lítilfjörlega víkja að br.till. þingmanna.

Það er fyrst breyttill. á þgskj. 511. Hún er frá háttv. þm. Strand. Hann vill að gert sé við veginn á Trékyllisheiði. Þessi heiði er ákaflega vond yfirferðar á vetrum, og þyrfti því að varða hana. Þessi heiði verður að teljast til fjallvega. En nefndinni þótti ekki ástæða til að sinna þessu, þar sem þess er gætt, að fjárveitingin til fjallvega var ekki brúkuð upp á síðustu fjárlögum. En eg vil benda háttv. þm. á, að ekki þarf annað en biðja stjórnina um þetta fé af fjallvegafjárveitingunni, og þá tel eg sjálfsagt, að þetta hérað fái styrk til vegarins. Viðvíkjandi 2. br.till. á sama þgskj. skal eg geta þess, að nefndin athugaði þetta og þótti rétt að veita þessa upphæð með því skilyrði, að héraðið leggi fé á móti. 3. br.till. á sama þgskj. þótti nefndinni ekki hægt að sinna. Þessar ár munu að vísu vera mönnum farartálmi, en hér á landi þarf svo margt að brúa, að það verður ekki öllu sint.

Þá eru nokkrar br.till. frá háttv. 3. kgk. á þgskj. 493. Nefndin lítur svo á þennan síma, sem um er að ræða, sem hina, að hans sé ekki brýn þörf, enda hefir þetta verið felt í Nd., svo að það eru litlar líkur til að þetta hafist þó þessi deild samþykti. Það hefir verið tekið fram um þennan síma, að hann væri tekjuvænlegur. Eg skal nú ekki neita því. En það hefir líka verið talað um að þessi staður væri heppilegur til loftskeytatilrauna. Meiri hluti nefndarinnar hefir því verið því mótfallinn að þessi sími yrði tekinn upp hér ofan í samþykt Nd., þar sem ekki væri um brýnni nauðsyn að ræða.