19.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

68. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Sigurður Hjörleifsson:

Mig furðar dálítið á því kappi, sem háttv. 5. kgk. þm. leggur á að þessi lög »bitni« á þeim ráðherra, sem væntanlega verður skipaður innan skamms. Eg skal ekki fjölyrða um málið, en það er þýðingarmikið mál, hvernig sem á það er litið. Mér þætti æskilegast að komast hjá því, að greiða meiri laun og meiri eftirlaun en þörf er á. En það verður að gæta að því, hvort hægt er að komast hjá því að greiða rífleg laun þessum embættismanni.

Eg vil benda háttv. 5. kgk. þm. á, að mikið ríður á að fá þá menn í ráðherrastöðu, sem geta fjárhagslega staðið sig við að taka við því embætti. Ef það er nokkur maður, sem á að fá eftirlaun, þá er það ráðherrann, maður sem verður að kasta stöðu sinni og verður svo steypt úr völdum eftir skamman tíma ef til vill.

Eg vil leyfa mér að stinga upp á 3 manna nefnd.