19.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

68. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Steingrímur Jónsson:

Eg er á sama máli og háttv. þm. Ak. um það, að aðalatriðið sé að fá sem bezta menn í ráðherrastöðuna, og því verði að búa að öllu leyti svo um hana, að efnahagur manna geti ekki verið því til fyrirstöðu, að þeir geti tekið á móti henni. Við vitum að efnahag okkar Íslendinga er þannig varið, að fæstir okkar mundu sjá sér fært að taka að sér eftirlaunalausa ráðherrastöðu. Þess vegna finst mér ráðherrastaðan vera það embætti, sem helzt ættu að fylgja eftirlaun. Þó öll önnur eftirlaun væru afnumin, væri rétt að ráðherraeftirlaunum væri haldið.

En hér skiljast vegir okkar. Eg álít að þetta frumv. eigi ekki skilið að komast í nefnd, heldur eigi það að falla strax. Örfá embætti eru, í samanburði við vandann, ver launuð en ráðherraembættið. Ósanngjarnast og harðast er frumv. þó í garð þeirra, sem ekki hafa verið í embætti áður, þar sem þeim eru að eins ætluð 2000 kr. eftirlaun í jafn mörg ár og þeir hafa verið ráðherrar. Eg legg því til, að það verði felt strax. Á móti nefnd er eg líka af þeirri ástæðu, að eg álít, að eigi það fram að ganga, þá eigi líka að samþykkja það sem allra fyrst, svo að viðtakandi ráðherra geti borið það fram strax. Það væri ekki sæmandi fyrir háttv. meiri hluta, að fara að eins að búa til keyri á næsta ráðherra, en láta sinn ráðherra búa við núverandi launakjör.