03.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

71. mál, eiðar og drengskaparorð

Framsögum. (Kristinn Daníelsson):

Það hefir gleymst nefndinni að kjósa sér framsögumann, en það dæmist venjulega á skrifara og því tek eg til máls. Eg get látið mér nægja að mestu að vísa til nefndarálitsins, sem eg vona að sé stuttort og gagnort, og lýsir skoðun nefndarinnar á málinu í fám orðum.

Að vísu er ef til vill æskilegt að breyta eiðstaf þeim, sem nú er notaður. En það ber þó enga brýna nauðsyn til þess að svo stöddu, og sízt er ástæða til að breyta honum í það horf, sem frv. fer fram á. Sérstaklega er það orðalagið, sem við álítum óheppilegt. Þó að málið á eiðstafnum eftir frumv. sé gott og hljómfagurt, þá er orðalagið eftir nútíðar málvenju ekki lagað til að varðveita þá alvöru, sem eiðsathöfninni verður að fylgja. Orðalagið má með engu móti vera þannig, að það geti gefið tilefni til kýmni; það verður að vera látlaust og blátt áfram.

Nefndin áleit hins vegar ekki, að neina nauðsyn bæri til breytinga á eiðnum. Um það bygðum við meðal annars á áliti háttv. 5. kgk. þm., sem er einn nefndarmanna, og hefir farið með eiðstafinn sem yfirvald, og álítur vel við hann unandi.

Það getur vel verið, að ástæða væri til að gera ýmsar breytingar á réttarfarinu, og væri þá líklega ástæða til að taka þetta atriði til yfirvegunar um leið. En að svo stöddu sjáum við enga þörf fyrir breytingar að þessu leyti og leggjum til að frumv. verði felt.