26.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

73. mál, hæstiréttur

Lárus H. Bjarnason:

Nú höggur sá, er hlífa skyldi, sjálfur »sjálfstæðismaðurinn« , háttv. þm. Ísfirðinga. Ætti nokkurt mál að vera áhugamál þeim mönnum, sem vilja kalla sig »sjálfstæðismenn«, þá ætti þetta að vera það, þetta mál, sem er eitt af aðalmáttarstoðunum í því máli, sem menn hafa skýrt sjálfstæðismálið.

Meðan æðsta dómsvald í málum okkar er utanlands, höfum við í rauninni lítið vald heima fyrir, því alstaðar þar, sem ágreiningur rís, sker dómsvaldið úr. Eg vona að aðrir meiri hluta menn hér í deildinni sýni sig tryggari við sjálfstæðishugmyndina en þm. Ísfirðinga.

Það getur ekki komið til mála, að varhugavert sé að samþykkja stofnun hæstaréttar vegna þeirra auknu útgjalda, sem það mundi hafa í för með sér. Hvernig getur nokkurt land, sem vill vera sérstakt ríki, verið þekt fyrir að segjast ekki hafa efni á að kosta dómstóla sína. Auk þess er hér um mjög óverulega útgjaldahækkun að ræða, þar sem að eins er gert ráð fyrir að tveim dómendum sé bætt við í yfirréttinn.

Að málum, sem fara til hæstaréttar, hafi fækkað, hefi eg ekki tekið eftir; eg skil ekki, hvaðan háttv. þm. hefir það.

Eg hefi alt af álitið þetta mál eitt af lífsspursmálum þjóðarinnar. og lít svo á enn. Eg hreyfði því á fundi alþingismanna og ríkisþingsmanna 1906 og hafði þó þá enga sérstaka ástæðu til að halda í með yfirréttinum. Og eins og eg sagði áðan, þykist eg vita, að hæstv. ráðherra hafi von um að koma því fram, úr því hann hefir ekki mælt á móti því. Eg vona því, að ekki heyrist fleiri raddir um að setja það í nefnd, því að það væri sannarlega sama sem að drepa það, svo mjög sem nú er áliðið þingtímans.