30.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

74. mál, hlutabréf Íslandsbanka

Ágúst Flygenring:

Þegar þetta frumvarp var fyrst lagt fyrir þingið var eg í efa um hvernig eg ætti að taka því. Eg leit svo á að með því að gefa út ný vaxtabréf fyrir 2 milj. kr. væri helst til mikið sett á markaðinn, sem landsjóður hefði ábyrgð á. Og meðan þau voru óseld var líka óvíst um það verð, sem þau yrðu seld fyrir; en nú hefir að vísu fréttst að þau séu þegar seld og það með góðu verði.

Hér er farið fram á, að landsjóður kaupi fyrir 2 miljónir kr. hlutabréf í Íslands banka og endurborgi lánið með jöfnum afborgunum á 50 árum. Með því móti tekur landsjóður mikinn þátt í stjórn bankans og hefir þá ætíð yfirhöndina þar; þessu hefir einmitt verið sóttst eftir og að því fundið, að yfirráðin yfir þessum banka væru í höndum útlendra manna og landið gæti ekki notið eins góðs af honum og vera ætti, sakir þess, að það ætti ekki hlut í bankanum. Þessi agnúi hyrfi því og landið gæti hagnýtt sér bankann á bezta hátt.

Eg sé heldur ekki betur en, að svo framarlega sem atvinnuvegir landsins eiga skilið að fá lán, og flestir munu játa að þá beri að styrkja, þá sé eðlileg afleiðing af því, að nauðsynlegt sé að efla bankana, því eins og kunnugt er, er um þessar mundir mikil eftirsókn eftir peningum og mörg þarfleg fyrirtæki, sem fyllilega ættu rétt á sér, verða að sitja á hakanum, vegna þess að fé er ekki til.

Næsta spurningin sem hér verður að gera er sú, hvort þetta verði beinn gróði fyrir landsjóð eða ekki; skuldabréfin eiga að vera arðberandi með 4½ og þess utan á að gefa á milli 60,000 kr. En enginn getur sagt hvað þessi bréf gefa af sér á næstu 50 árum, því það er undir hag landsmanna komið. Ef bréfin ættu fyrir sér það sem menn vona, þá hlýtur bankinn að geta gefið af sér svo mikla vexti að þessi kaup borgi sig. Síðustu ár hefir Íslands banki gefið af sér 6 l/2 % sem má teljast að séu háir vextir, og þó hann ekki gæfi af sér nema 6 % á næstu 50 árum, þá væri það fullgóður arður, þó munurinn nemi þá um helmingi af þeim afborgunum, sem eiga að borgast á þessum 50 árum. Og þó landsjóður hefði ekki beinan hagnað af þessu, þá fengi þó landið yfirtökin í stjórn bankans og með því er bankinn orðin innlend stofnun og þess hefir alt af verið óskað, eins og áður er tekið fram. En mest er þó um vert að hægt sé að útvega peninga til þess að lána út, þegar þarfleg fyrirtæki eiga hlut að máli, og það er auðséð að með því að setja landsjóðsskuldabréf fyrir 2. milj. kr. er bætt úr sárustu þörfinni í bráð að minsta kosti. Eg veit auðvitað ekki um sölu þessara bréfa, en þó hefir mér verið sagt að þau séu seljanleg með góðu verði, 98 %; og Íslandsbanki er fús á að taka þau upp í hlutabréfin. Þessi kaup ættu því að vera hagur fyrir landsmenn, og á það er mest að líta, því nú ríður á að geta haldið fjárhagslegum málefnum landsins og landsmanna á réttum kili, þangað til komið er yfir þá fjárþröng, sem nú stendur yfir. Og ef nefnd verður skipuð í málið, þá eru það tilmæli mín til þeirrar nefndar að hún athugi málið sem allra best.