07.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

74. mál, hlutabréf Íslandsbanka

Framsögum. (Jósef Björnsson):

Eg vil fyrst og fremst leyfa mér að geta þess, að nefnd sú, sem í þetta mál var skipuð, hefir haft mjög svo takmarkaðan tíma til íhugunar og ályktunar um málið. Og skal eg því játa, að nefndarálitið er hvergi nærri svo, sem við hefðum á kosið. Þó höfum við ekki gengið fram hjá neinum af aðalatriðunum.

Það sem fyrst og næst liggur er að mínum dómi: Hver er aðaltilgangur frumvarpsins? — Nefndinni virðist hann vera tvennur: 1) sá, að með þessu frv. sé ætlast til að greitt sé úr peningavandræðum þeim, sem átt hafa sér stað nú um hríð í landinu, — 2) sá, að landsmenn fái umráð yfir Íslandsbanka. Þessi tvö atriði finst nefndinni vera tilgangur frumvarpsins.

Hvað fyrra atriðið snertir, þá höfum við, eins og nefndarálitið ber með sér, ekki fengið fulla ástæðu til að ætla, að ef þessi kaup færi fram, þá mundi það, svo að til neinnar hlítar væri, bæta úr peningaþörfinni. Ástæðan er sú, að nefndin lítur svo á, að eins og 1907, þegar leyft var að auka hlutaféð úr 3 milj. upp í 5 miljónir, var sagt að sú fjáraukning mundi koma landsmönnum til góðs í útlánum, en muni hafa mestmegnis gengið til að borga útlendar skuldir bankans, — þá sé ekki heldur vissa fyrir því, að þessi kaup rýmkuðu svo um hag bankans, að að verulegu haldi kæmi fyrir landsmenn. Og er einmitt fylsta ástæða til að ætla, að svo muni og geta farið nú sem þá, að allmikill hluti þessa fjárauka gengi til að borga erlendar skuldir bankans. — Að vísu býst eg við, að því yrði þá þar til svarað, að þó að svo fari, þá muni einmitt það, að bankinn losnar úr útlendum skuldum, verða til þess að rýmka um hag hans innanlands, svo að hann standi betur að vígi til útlána. Ekki ber því að neita, að nokkuð virðist þessi ástæða hafa til síns máls; og ekki eru brigður á það berandi, að eitthvað mundi betur rætast úr viðskiftum bankans við landsmenn, ef þetta næði fram að ganga. En þó gat nefndinni ekki orðið þessi ástæða svo þung á metunum, að henni fyndist gerlegt þess vegna að ráðast í kaupin; og satt að segja efaðist hún um verulega uppskeru í þessu atriði af kaupunum. — Bankinn hefir, samkvæmt þeim réttindum, sem hann hefir nú, rétt til að hafa í veltu meira fé en hann hefir haft til þessa; 1908 voru í gangi seðlar úr Íslandsbanka, sem námu upphæðinni 857,550 kr. Þetta hefði bankinn að sjálfsögðu getað haft miklu meira, ef hann hefði viljað. En honum hefir vafalaust ekki fundist nauðsyn til þess bera. — Eg skal og leyfa mér að taka það fram, að nefndinni hefir ekki virzt það í heild sinni, að þó frumvarp þetta næði fram að ganga, þá mundi það fullnægja til að bæta úr peningavandræðum þeim, sem átt hafa sér stað og eiga sér stað í landinu.

Hvað hitt atriðið snertir, þau yfirráð, sem landsmenn fengi yfir bankanum með því að eignast 2 miljónir af hlutafé hans, þá er það að segja, að það mundi hvergi nærri vera nein trygging fyrir því, að við fengjum full yfirráð yfir honum. Því aðgætandi er, að þar sem alt hlutafé bankans eru fullar 5 miljónir, og þó landsmenn eignuðust þar af 2 miljónir, þá eru þó eftir 3 miljónir, sem við hefðum engin umráð yfir. Og yrðu því yfirráð vor yfir bankanum að eins að ? hlutum. Og mundum vér því í þessu atriði tæpast ná tilgangi vorum, þó til væri stofnað.

En auk þess, sem ærið vafasamt er um, hvort tilganginum verður náð í þessum tveimur aðalatriðum, þá er og fleira, sem hér getur komið til greina. Í 1. gr. frumvarpsins er verðið til tekið. Er gert ráð fyrir, að landsjóður kaupi hlutabréfin fyrir 101, og fylgi í kaupunum arður frá 1. júlí 1909. Gegn þessu á svo Íslands banki að taka landsjóðsskuldabréf fyrir 98. Landsjóður á þá að gefa í milli 3 %, sem er sama og 60,000 kr., sem útborgist í peningum. Fyrst og fremst er nú 60 þús. kr. alls ekki svo lítil upphæð. Þó gæti það komið til greina, ef mikill hagur væri sýnilegur í aðra hönd. En nefndin getur nú, eins og eg sagði, ekki séð það; og finst oss því, að um óeðlilega milligjöf sé að ræða. Því vér álítum, að skuldabréf landsjóðs séu að minsta kosti eins vel trygð og hlutabréf Íslands banka, þar sem þau eru trygð með ábyrgð allrar þjóðarinnar. Og tel eg alls engan vafa á, að hlutabréf landsjóðs mundu seljast fyrir hærra verð en gangverð Íslands banka hlutabréfa. En það var í apríl ’99; og fylgdi þar með arður frá síðasta ári 6 ½ % og arður fram í apríl. Sé nú sá arður frá dreginn, og hann dregst að sjálfsögðu frá á hlutabréfum landsjóðs, eftir því sem til er tekið í frumvarpinu, — þá er sannverðið í apríl 91—92. Og er það því í rauninni fast að 10%, sem landsjóður gefur í milli, þegar þetta er tekið til greina. — Nefndinni þykir og óviðfeldið ákvæðið í 5. gr., sem sé það, að landsjóður sé skyldur að geyma þessi bréf sem hann fær, og setja ábyrgð fyrir að þau séu trygð; en aftur er ekki gert ráð fyrir neinni tryggingu af hendi Íslands banka.

Í heild sinni virðist oss þannig frá frumvarpi þessu gengið frá því fyrsta til þess síðasta, að ekki sé eftir neinu að slægjast. Hvorki hugsum vér að með þessu verði bót ráðin á peningavandræðum þeim, sem í landinu hafa ríkt undanfarið, — né heldur hitt, að yfirráð þau, sem gert er ráð fyrir að landsmenn fái yfir peningastofnun þessari verði fullkomin eða til nokkurrar hlítar eftir því sem á stendur að öðru leyti. — Þess utan mundi það baka landsjóði mjög mikla ábyrgð auk þeirrar, sem hann stendur í áður, t. d. seðlum Landsbankans, ½ miljón, ½ miljónar lán til vatnsveitu Reykjavíkur, o. m. fl.,alt í alt 6—7 milj. Að fara svo að bæta við nýrri ábyrgð, sem næmi 2 miljónum, og það til ekki nauðsynlegra fyrirtækis, hljótum vér að álíta mjög misráðið og óheppilegt. Og er það því síðasta orð mitt hér í nefndarinnar nafni, að bæði af þeim ástæðum, sem eg hefi hér tekið fram og teknar eru fram í nefndarálitinu, ráðum við algjört frá að frumvarpið nái samþykki háttv. deildar.